Körfubolti

Úrslitaeinvígið blasir við Denver Nuggets

Smári Jökull Jónsson skrifar
LeBron James verst gegn Nikola Jokic í leiknum í Los Angeles í nótt.
LeBron James verst gegn Nikola Jokic í leiknum í Los Angeles í nótt. Vísir/Getty

Denver Nuggets er komið í afar góða stöðu gegn Los Angeles Lakers í úrslitaeinvígi Vesturdeildar NBA eftir sigur í þriðja leik liðanna í Los Angeles í nótt. Denver leiðir 3-0 í einvíginu.

Denver hafði unnið sigur á heimavelli í fyrstu tveimur leikjum einvígisins en í nótt var leikið á heimavelli Lakers sem þurfti nauðsynlega að sækja sigur.

Gestirnir byrjuðu betur og náðu fljótlega ágætri forystu. Lakers var í vandræðum að koma stigum á töfluna á meðan Jamal Murray fór mikinn í liði Nuggets. Murray skoraði 17 stig í fyrsta leikhluta og lið Denver var með 32-20 forystu að honum loknum.

Lakers vann sig þó inn í leikinn fyrir lok fyrri hálfleiks. Austin Reaves jafnaði í 55-55 úr tveimur vítaskotum undir lok annars leikhluta en Kentavious Caldwell-Pope sá til þess að Nuggets fór með forystu inn í hálfleikinn með því að skora þriggja stiga körfu undir lok annars leikhluta.

Lið Nuggets var áfram skrefinu á undan eftir hlé. Þeir náðu níu stiga forystu í upphafi þriðja leikhluta en Lakers kom til baka og jafnaði á ný. Staðan fyrir lokafjórðunginn var 84-82 og allt í járnum.

Þar var það Nikola Jokic sem tók yfir. Hann skoraði 15 stig í fjórða leikhluta og eftir að Denver komst í 106-94 forystu þegar tæpar fimm mínútur voru eftir náði Lakers aldrei að minnka forystuna nema niður í átta stig.

Denver vann að lokum 119-108 sigur og nú komið 3-0 yfir í einvíginu og þarf aðeins einn sigur til að tryggja sér sæti í úrslitum NBA-deildarinnar í fyrsta sinn í sögunni en liðið er eitt af sex liðum í deildinni sem aldrei hefur leikið til úrslita.

Jamal Murray var frábær hjá Denver í nótt, hann skoraði 37 stig, tók 7 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Nikola Jokic skoraði 24 stig en Caldwell-Pope, Bruce Brown og Michael Porter Jr. komu einnig með mjög gott framlag að borðinu.

Anthony Davis var stigahæstur hjá Lakers með 28 stig auk þess að taka 18 fráköst og þeir LeBron James og Austin Reaves skoruðu 23 stig hvor.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×