Viðskipti innlent

Enginn atvinnulaus í Skagafirði

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Sigfús Ólafur Guðmundsson, sem vinnur við atvinnu- og kynningarmál  hjá Sveitarfélaginu Skagafirði.
Sigfús Ólafur Guðmundsson, sem vinnur við atvinnu- og kynningarmál hjá Sveitarfélaginu Skagafirði. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Um sextíu fyrirtæki í Skagafirði taka nú þátt í atvinnulífssýningu um helgin á Sauðárkróki en sýningunni er ætlað að varpa ljósi á þann fjölbreytileika sem er í þjónustu, framleiðslu, mannlífi og menningu í Skagafirði. Auk þess að kynna sprota og nýsköpun í atvinnulífi og síðast en ekki síst skapa skemmtilegan viðburð fyrir heimafólk og gesti.

Sýningin, sem heitir „Skagafjörður, heimili Norðursins“ var formlega sett í morgun klukkan 11:00 en hún stendur yfir í dag og á morgun og fer fram í íþróttahúsinu á Sauðárkróki. Þátttaka á sýninguna er mjög góð en hún er bæði á inni- og á útisvæði.

Sigfús Ólafur Guðmundsson vinnur við atvinnu- og kynningarmál hjá Sveitarfélaginu Skagafirði, sem heldur sýninguna.

„Heyrðu, hérna eru bara fyrirtækin og félagasamtök og í rauninni bara allt samfélagið að sýna hversu megnug þau eru. Við erum með fjölbreytta dagskrá á sviðinu líka og ýmsar uppákomur. Það skiptir auðvitað miklu máli fyrir samfélagið að sýna hversu öflugt samfélagið er. Við erum með mjög hátt þjónustustig hér í Skagafirði og með mjög fjölbreytta starfsemi. Okkur vantar alltaf fólk og til að mynda þá skoðaði ég tölur fyrir apríl núna og þá erum við með enga manneskju á atvinnuleysisskrá,“ segir Sigfús Ólafur.

Sigfús Ólafur segir að töluvert sé um ný fyrirtæki í Skagafirði, það séu ekki bara gömul fyrirtæki eins og Kaupfélag Skagfirðinga.

„Við héldum þessa sýningu síðast 2018 og við erum í rauninni að fjölga sýnendum síðan þá, þannig að það er mikið af nýliðum líka hjá okkur, margir nýir að koma, sprotar og svona minni fyrirtæki.“

Um 60 sýnendur taka þátt í sýningunni um helgina í íþróttahúsinu á Sauðárkróki og á útisvæði við íþróttahúsið.Aðsend

Og er gott að vera með fyrirtæki í Skagafirði?

„Já, það er alveg ótrúlega gott að vera með fyrirtæki í Skagafirði. Það er stutt út um allt, til dæmis ef þú ætlar að vera með vefverslun á Íslandi, þá er mjög gott að vera í Skagafirði, það er stutt í boðleiðir um allt, við erum fyrir miðju Íslandi,“ segir Sigfús kampakátur með sýninguna.

Allar nánari upplýsingar um atvinnulífssýninguna er að finna hér á heimasíðu sveitarfélagsins.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×