Viðskipti innlent

Fyrst og fremst von­brigði fyrir Norður­land

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri. Aðsend

Bæjarstjóri Akureyrar segir mikil vonbrigði fyrir íbúa Norðurlands að félagið Niceair sé farið í þrot. Of litlum markaði fyrir utanlandsflug frá Akureyri sé ekki um að kenna, heldur öðrum þáttum. Gjafabréf sem fólk á inni hjá félaginu eru líklegast ónýt, að sögn formanns Neytendasamtakanna. 

Í gær var greint frá því að stjórn Niceair myndi óska eftir að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Ástæðan væri óeðlilegir viðskiptahættir erlends samstarfsfélaga. Niceair var stofnað snemma á síðasta ári og átti heimahöfn á Akureyri. Þaðan var flogið til Kaupmannahafnar, Lundúna, Tenerife og Alicante. Í síðasta mánuði var gert hlé á starfsemi félagsins og reynt að koma betri skipan á fjármál félagsins. Nú er orðið ljóst að það gekk ekki eftir.

Bæjarstjóri Akureyrar segir áhrif af gjaldþrotinu mikil, á alla íbúa Norðurlands.

„Þetta voru náttúrulega miklar væntingar sem við höfðum til þess að fá beint flug frá Akureyri til Evrópu. Það eru kannski bara fyrst og fremst vonbrigði að þetta hafi farið með þessum hætti,“ segir Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri.

Mikill missir sé af félaginu, á fleiri en eina vegu.

„Bæði það að fá ferðamenn inn á svæðið og fá þessa aðra gátt inn í landið, og síðan að þjónusta íbúana á þessum hluta landsins með því að fljúga beint til Evrópu frá Akureyri.“

Vel hægt að fljúga út frá Akureyri

Gjaldþrot félagsins sé þó ekki til marks um að markaðurinn fyrir utanlandsflug frá Norðurlandi sé of lítill. Síður en svo.

„Ég held að þessi tilraun hafi alveg sýnt það að það er sannarlega markaður fyrir nákvæmlega þetta flug. En það var ekki það sem réði því að fyrirtækið fór á hausinn. Það voru aðrar forsendur, eða aðrar ástæður fyrir því.“

Þú sérð alveg fyrir þér að í framtíðinni verði hægt að reyna þetta aftur? 

„Að sjálfsögðu, mér finnst það engin spurning,“ segir Ásthildur.

Gjafabréf sennilega farin í vaskin

Í samtali við fréttastofu sagði Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, að líklegt væri að gjafabréf sem fólk ætti inni hjá félaginu væru ónýt. Fyrri reynsla af gjaldþrotum flugfélaga sýndi það. 

Engu að síður mælti hann með því að fólk lýsti kröfum í búið, auk þess sem samtökin myndu birta upplýsingar á vefsíðu sinni um hvernig fólk gæti borið sig að í þeim efnum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×