Handbolti

„Handboltinn á þessu stigi er ótrúlega skemmtilegur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sara Sif Helgadóttir var besti maður vallarins í Garðabænum.
Sara Sif Helgadóttir var besti maður vallarins í Garðabænum. vísir/hulda margrét

Sara Sif Helgadóttir var hin kátasta eftir leik Stjörnunnar og Vals enda varði hún átján skot (49 prósent) í sjö marka sigri Valskvenna, 20-27, sem eru komnar í úrslit Olís-deildarinnar.

„Þetta er ótrúlega gaman og skemmtilegt að vera komin aftur inn í þetta og ná þessu. Ég gæti ekki verið ánægðari,“ sagði Sara við Vísi. Hún meiddist á hné undir lok tímabilsins og ekki var búist við því að hún kæmi til baka jafn snemma og hún gerði.

„Alls ekki, því skilaboðin frá læknunum voru svo misvísandi. Ég komst að því að ég sleit krossband þegar ég var tólf ára en síðan var það allt í lagi. Það komst bara upp núna. En ég er ótrúlega sátt að hafa náð þessu og þetta hafi bara verið liðbandið. Ég er rosalega heppin.“

Sara var ánægð með frammistöðu Valsliðsins í Garðabænum í dag.

„Við vorum öruggar og spiluðum okkar leik. Við einbeittum okkur ekki bara að þeim. Ég fór að vera rólegri og þá gengur þetta betur,“ sagði Sara sem hlakkar til úrslitaeinvígisins þar sem Valur mætir annað hvort Haukum eða ÍBV.

„Auðvitað, það verður ótrúlega skemmtilegt og handboltinn á þessu stigi er ótrúlega skemmtilegur. Ég hvet alla til að mæta, alla til að horfa,“ sagði Sara að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×