Viðskipti innlent

Sala á bjórkútum jókst um 48 prósent og rekstrar­hagnaður stór­eykst milli tímabila

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Rekstrarhagnaður Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar jókst um 98% milli tímabila.
Rekstrarhagnaður Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar jókst um 98% milli tímabila. Vísir/Vilhelm

Rekstarhagnaður Ölgerðarinnar á fjórða ársfjórðungi hækkaði um 439 milljónir króna milli tímabila fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta. Vörusala Ölgerðarinnar var 20,7% hærri á fjárhagsárinu og var 48% magnaukning á bjórkútum. Hagnaður samstæðunnar á fjárhagsárinu var 2,5 milljarðar króna eftir skatta. 

Þetta kemur fram í ársreikningi Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar hf. fyrir tímabilið 1. mars 2022 til 28. febrúar 2023.

Þar segir að rekstrarhagnaður fyrirtækisins fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) hafi verið 885 milljónir króna á fjórða ársfjórðungi 2022 en 446 milljónir króna á sama tímabili árið 2021. Hann hækkaði því um 439 milljónir króna milli tímabila eða 98%. 

Þá var hagnaður eftir skatta á tímabilinu 505 milljónir króna og jókst hann um 364 milljónir króna milli ára.

Sala til hótela aldrei verið meiri

Sömuleiðis segir í ársreikningnum að á fjárhagsárinu 2022 hafi veltuaukning numið 6,6 milljörðum króna eða sem nemur 20,7%. 

Veltuaukningu megi rekja til aukinnar sölu á bæði framleiðsluvörum og innflutningsvöru en um 71% af veltuaukningunni megi rekja til drykkjarvöru. Einnig kemur fram að sala á bjór í kútum hafi aukist um 48% í lítrum talið á árinu.

Sala Ölgerðarinnar til hótela og veitingastaða jókst um 55% og fyrirtækja um 45%. Enn fremur sé hlutfall heildarveltu Ölgerðarinnar til hótela og veitingastaða 19% og það hafi aldrei verið hærra. Stóraukning á sölu bjórs í kútum spilar þar stóra rullu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×