Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - FH 24-33 | FH sendi Selfoss í sumarfrí

Andri Már Eggertsson skrifar
5P8A0957
vísir/diego

Selfoss er úr leik eftir að hafa fengið skell gegn FH á heimavelli. Leikurinn endaði með níu marka sigri FH-inga 24-33. Gestirnir settu tóninn strax í upphafi leiks og sigurinn var gott sem kominn í hálfleik.

Tímabilinu er lokið hjá Selfyssingum en FH mætir ÍBV í undanúrslitum. 

FH-ingar tóku frumkvæðið og byrjuðu frábærlega. Það var ekki að sjá að tímabilið hafi verið undir hjá Selfyssingum þar sem heimamenn voru hræðilegir fyrsta korterið.

Í stöðunni 2-2 hrundi sóknarleikur heimamanna. Selfoss skoraði ekki mark í tæplega tíu mínútur. Ísak Gústafsson og Einar Sverrisson enduðu nánast allar sóknir Selfyssinga en þeir eins og aðrir leikmenn Selfoss gátu ekki keypt sér mark á þessum kafla. Phil Döhler, markmaður FH, var að verja ágætlega en mörg skot fóru beint í hávörnina.

Leikur Selfyssinga batnaði töluvert eftir að Jón Þórarinn Þórarinsson fór í markið. Heimamenn náðu áttum og minnkuðu forskot FH-inga minnst niður í fimm mörk í fyrri hálfleik. Einar Bragi Aðalsteinsson fór á kostum í fyrri hálfleik og skoraði sjö mörk.

Gestirnir voru níu mörkum yfir í hálfleik 10-19.

Selfyssingar voru ekki á því að gefast upp þrátt fyrir lélegan fyrri hálfleik. Selfoss gerði fyrstu þrjú mörkin í seinni hálfleik og fengu stuðningsmennina til að taka við sér í stúkunni. Þrátt fyrir að hafa fengið á sig þrjú mörk í röð voru FH-ingar ekki lengi að rétta úr kútnum og þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik voru gestirnir komnir tíu mörkum yfir.

Áfram hélt sóknarleikur Selfyssinga að vera til vandræða. Um miðjan seinni hálfleik voru úrslit leiksins löngu ráðin og restin af leiknum fór bara í það að leyfa öllum að spila.

FH vann að lokum níu marka sigur 24-33.

Af hverju vann FH?

Fyrri hálfleikur FH-inga var afar vel spilaður á báðum endum vallarins. Varnarleikur FH var góður og Selfyssingum tókst ekki að skora mark í tæplega tíu mínútur. Þá voru þeir að skjóta mikið í hávörnina ásamt því varði Phil Döhler vel. Sóknarlega var nánast allt inni hjá FH sem skilaði 19 mörkum í fyrri hálfleik.

Hverjir stóðu upp úr?

Einar Bragi Aðalsteinsson var frábær í kvöld. Einar Bragi var á eldi í fyrri hálfleik þar sem hann skoraði sjö mörk. 

Phil Döhler stóð vaktina vel í markinu og varði 14 skot.

Hvað gekk illa?

Guðmundur Hólmar Helgason, Ísak Gústafsson og Einar Sverrisson spiluðu eins og þeir væru komnir með hugann allt annað. Ísak gat ekki keypt sér mark á tímabili og endaði með 3 mörk úr 12 skotum.

Guðmundur Hólmar gat ekkert og Einar Sverrisson hélt áfram að klikka á vítum. 

Hvað gerist næst?

Selfyssingar eru farnir í sumarfrí en FH mætir ÍBV í undanúrslitum.

Þórir: Skotnýtingin var skelfileg

Þórir Ólafsson var svekktur eftir leikVísir/Diego

Þórir Ólafsson, þjálfari Selfyssinga, var afar svekktur eftir níu marka tap gegn FH.

„Sóknarleikurinn varð okkur að falli. Skotnýtingin var skelfileg fyrstu tíu mínúturnar og við grófum okkur í of djúpa holu,“ sagði Þórir Ólafsson eftir leik.

Þóri fannst ekki mikill munur á sóknarleiknum í kvöld og í síðasta leik.

„Það var enginn munur við spiluðum svipuð kerfi. Skotin voru bara léleg og illa tímasett. Spennustigið var of mikið til að byrja með. Við fengum góða markvörslu og þegar við komumst í vörn stóðum við hana ágætlega.“

Tímabilið er búið hjá Selfyssingum og Þórir var svekktur að hafa ekki tekist að vinna leik í átta liða úrslitum.

„Núna er maður hundfúll og svekktur. Tímabilið var skemmtilegt þegar vel gekk og leiðinlegt þegar illa gekk.“

„Ég á ekki von á að fleiri fari fyrir næsta tímabil eins og stendur. Við munum reyna að styrkja hópinn. Það eru ungir strákar á leiðinni í hópinn og við munum reyna að byggja í kringum það,“ sagði Þórir Ólafsson að lokum. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira