Golf

Tiger eyðir óvissunni fyrir Masters

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Létt var yfir Tiger Woods þegar hann æfði á Augusta National vellinum í gær.
Létt var yfir Tiger Woods þegar hann æfði á Augusta National vellinum í gær. getty/Andrew Redington

Tiger Woods ætlar sér að keppa á Masters sem hefst á fimmtudaginn í þessari viku. Hann æfði á Augusta National vellinum í Georgíu í gær.

Tiger hefur aðeins keppt á einu PGA-móti undanfarna sjö mánuði. Hann endaði í 45. sæti á Genesis Invitational í febrúar.

En allt bendir til þess að Tiger verði meðal keppenda á Masters seinna í vikunni. Hann var allavega mættur á Augusta National völlinn í gær og æfði í um hálftíma.

Tiger sneri aftur á golfvöllinn á Masters í fyrra eftir að hafa slasast alvarlega í bílslysi í febrúar 2021. Hann náði sér ekki á strik á Masters á síðasta ári og endaði í 47. sæti.

Hinn 47 ára Tiger hefur keppt 24 sinnum á Masters og unnið mótið fimm sinnum, síðast 2019. Það var fyrsti sigur hans á risamóti síðan 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×