Viðskipti innlent

Arnar Már snýr aftur í fram­kvæmda­stjórn Play

Atli Ísleifsson skrifar
Arnar Már Magnússon þegar flugfélagið Play var kynnt til sögunnar í Perlunni í Reykjavík árið 2019.
Arnar Már Magnússon þegar flugfélagið Play var kynnt til sögunnar í Perlunni í Reykjavík árið 2019. Vísir/Vilhelm

Arnar Már Magnússon, flugstjóri og einn af stofnendum Play, mun senn taka aftur við sem framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs félagsins.

Frá þessu greinir í tilkynningu frá Play. Þar kemur fram að Arnar hafi verið framkvæmdastjóri sviðsins þar til fyrir rúmu ári þegar hann hafi ákveðið að setjast aftur í flugstjórasætið í fullu starfi. 

„Arnar Már er einn af stofnendum Play og var forstjóri á sprotastigi flugfélagsins á árunum 2019-2021 áður en félagið hóf sig til flugs.

Arnar tekur við framkvæmdastjórastöðunni af Guðna Ingólfssyni sem mun láta af störfum á næstunni. Guðni hefur verið framkvæmdastjóri sviðsins frá því í mars 2022,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Birgi Jónssyni, forstjóra Play, að hann sé ofsalega ánægður að fá Arnar Má aftur í framkvæmdastjórn Play á þessum tímapunkti, úthvíldan og til í slaginn. 

„Arnar hefur verið lykilmaður í sögu PLAY enda einn af stofnendum félagsins. Arnar var öflugur liðsmaður framkvæmdastjórnar félagsins áður en hann ákvað að háloftin kölluðu og það er gott að fá krafta hans aftur inn í framkvæmdastjórn PLAY á þessu mikilvæga ári í sögu félagsins. Ég veit að flugrekstrarsviðið verður í góðum höndum hjá Arnari. Á sama tíma vil ég þakka Guðna Ingólfssyni kærlega fyrir vel unnin störf síðasta árið á mikilvægum uppbyggingartíma félagsins. Ég óska honum jafnframt góðs gengis í því sem hann tekur sér fyrir hendur,“ segir Birgir Jónsson.

Þá er haft eftir Arnari Má að það sé mikið tilhlökkunarefni að vinna með öflugum hópi fagfólks á flugrekstrarsviði Play á nýjan leik, fólki sem hann þekki þegar vel. „Það hefur gefið mér afskaplega mikið að vinna síðastliðið ár í framlínunni og fljúga okkar glæsilegu og nýju Airbus flugvélum til allra okkar áfangastaða bæði í Norður Ameríku og Evrópu, með frábærum hópi flugfólks bæði í flugstjórnarklefanum og farþegarými. Það eru spennandi tímar fram undan enda mikil uppbygging á komandi mánuðum hjá flugfélaginu sem gaman verður að takast á við með frábæru samstarfsfólki í lofti sem og á jörðu niðri,” segir Arnar Már Magnússon.


Tengdar fréttir

Arnar Már hættir hjá Play

Arnar Már Magnússon, flugstjóri og einn af stofnendum Play, hefur ákveðið að láta af störfum hjá félaginu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×