Handbolti

Hinir gömlu vinna á meðan þeir ungu rölta um bæinn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Björgvin Páll var á meðal þeirra sem þurftu að sinna vinnu á milli funda og æfinga.
Björgvin Páll var á meðal þeirra sem þurftu að sinna vinnu á milli funda og æfinga. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Leikmenn Vals hafa í mismiklu að snúast á milli æfinga og taktíkurfunda í Göppingen. Liðið mætir heimamönnum í síðari leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar annað kvöld.

Valsmenn æfðu í keppnishöllinni í morgun eftir að hafa lent í Þýskalandi í gærkvöld. Þegar fréttamenn Vísis bar að garði á hótel þeirra rétt utan Göppingen voru þar eldri leikmenn liðsins að sinna fjarvinnu á meðan margir yngri nýttu tímann í bæjarferð.

Fyrirliðinn Alexander Örn Júlíusson, Bergur Elí Rúnarsson og Finnur Ingi Stefánsson sátu þá allir við störf á hótelinu á meðan aðrir spókuðu sig í bænum. Björgvin Páll Gústavsson var þá kominn niður að vinna síðar um daginn.

„Þessi eldri kynslóð er með vinnu heima líka og börn heima, þannig að við notum tímann vel til þess að koma einhverju í verk á góðum mánudegi í Þýskalandi,“ segir Björgvin Páll við Vísi.

Strákarnir áttu svo taktíkurfund seinni partinn í dag og liðið æfir aftur í keppnishöllinni í fyrramálið.

Leikurinn hefst klukkan 18:45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Vísir mun fylgja liðinu eftir fram að leik og gera allt saman vel upp að honum loknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×