Viðskipti innlent

Skaga­fjörður nú með eitt besta 5G sam­band á landinu

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. Getty/Schroll

Skagafjörður er nú með eitt besta 5G samband á landinu. Vodafone hefur unnið að uppbyggingu 5G kerfis á Íslandi og hefur nú lokið uppsetningu á tveimur 5G sendum í Skagafirði. Sendarnir eru á Hegranesi og inni á Sauðárkróki. 

„Starfsmenn okkar hafa verið í vinnu síðustu vikurnar við uppsetningu á 5G sendum á svæðinu. Síðustu ár hefur Vodafone einnig unnið að eflingu 4G á svæðinu meðal annars með uppsetningu á nýjum sendastöðum ásamt uppfærslu á sendum. Því hafa tengingar í Skagafirði verið stórbættar fyrir íbúa svæðisins sem og ferðamenn.“

„Í haust stefnum við á að klára innleiðingu á svokölluðu VoWIFI, sem þýðir að notendur munu geta sett upp og móttekið hefðbundin símtöl yfir WiFi. Þessi tækni getur komið sér vel á bæjum og sumarhúsum þar sem ljósleiðaratenging er til staðar en ekki gott farsímamerki innanhúss. Við erum afar ánægð með þessa stórbættu þjónustu í Skagafirði og hvetjum íbúa til að setja sig í samband við okkur ef þá vantar ráðgjöf varðandi hverskonar heimatengingar henti þeirra staðsetningu best,“ segir Bjarni Freyr Guðmundsson, rekstrarstjóri Vodafone á Norðurlandi í tilkynningu.

Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri Skagafjarðar er ánægður með þróunina. 

„Ég fagna því að Vodafone hafi sett upp 5G senda í Skagafirði og eflt 4G sambandið samtímis. Það skiptir íbúa Skagafjarðar og þá fjölmörgu ferðamenn og aðra gesti sem sækja héraðið heim miklu máli að geta verið í tryggu og góðu sambandi sem víðast. Þá er afar gott að Vodafone sé að horfa til lausna sem tryggja betri móttöku á hefðbundnum samtölum yfir WiFi þannig að unnt sé að nýta ljósleiðartengingar til að treysta farsímamerki innanhúss þar sem þess er þörf," er haft eftir Sigfúsi Inga í tilkynningu.

Vísir og Vodafone eru undir hatti Sýnar hf.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×