Fyrsta flug Play til Amsterdam verður 5. júní. Eftir það verður flogið allt að fimm sinnum í viku út október. Samkvæmt tilkynningu frá flugfélaginu verða áætlunarferðir þess til Amsterdam á mánudögum, miðvikudögum, fimmtudögum, föstudögum og sunnudögum.
Í tilkynningunni kemur einnig fram að það hafi verið forgangsmál flugfélagsins frá stofnun þess að fá lendingarleyfi á Schiphol flugvellinum. Það hafi þó verið erfitt að komast þar að á undanförnum árum.
„Schiphol-flugvöllur er þriðji stærsti flugvöllur Evrópu og því ákaflega mikilvæg viðbót við leiðakerfi PLAY. Það er ekki hlaupið að því að fá lendingarleyfi á flugvellinum í dag. Þess vegna stukkum við til þegar okkur bauðst lendingarleyfi þar í sumar,” er haft eftir Birgi Jónsson, forstjóra PLAY, í tilkynningunni.
Birgir vonast til þess að hægt verði að bjóða upp á áætlunarferðir til Amsterdam allt árið, þessi ákvörðun sé liður í að koma flugfélaginu i þá stöðu.
„Markmiðið okkar í ár er að auka hlut hliðartekna verulega í okkar rekstri og með því að taka stefnuna til Amsterdam erum við að setja okkur í frábæra stöðu til að gera það með vöruflutningum.“
Aflýsa áætlun til Árósa
Viðskiptavinir Play sem höfðu ætlað sér að fara til Árósa í sumar þurfa þó að leita annarra leiða til þess. Því flugfélagið mun aflýsa áætlun sinni til Árósa í Danmörku.
„Þetta er miður þar sem sala á miðum til Árósa hafði gengið vel en vegna mikilvægis Schiphol-flugvallar fyrir áætlunarkerfi PLAY var þessi ákvörðun tekin. Farþegum sem áttu bókað flug með PLAY til og frá Árósum fá að sjálfsögðu bókun sína endurgreidda að fullu,“ segir í tilkynningunni.