Vísitala neysluverðs í Argentínu hækkaði um 9,8 prósent milli janúar og febrúar og stendur verðbólgan á ársgrundvelli nú í 102,5 prósentum.
Verðbólga í landinu hefur verið gífurleg undanfarin ár en frá því árið 2015 hefur hún nánast samfleytt verið yfir tuttugu prósentum. Í mars á síðasta ári var hún 55,1 prósent.
Það er þó ekki nálægt verðbólgumeti Argentínumanna. Í mars árið 1990 var verðbólgan rúmlega tuttugu þúsund prósent eftir að Carlos Menem var kjörinn forseti og setti hagkerfi landsins í svokallaða „raflostmeðferð“ til að jafna sig eftir mikla kreppu. Meðal þess sem hann gerði var að selja flest allar eignir ríkisins til einkaaðila.
Í september á síðasta ári mótmæltu íbúar landsins og heimtuðu að stjórnvöld myndu ráðast í aðgerðir til þess að koma til móts við íbúa í landinu. Í síðasta mánuði tilkynnti seðlabanki landsins að nýr tvö þúsund pesóa seðill yrði gefinn út. Tvö þúsund pesóar samsvara rúmlega 1.100 krónum.