Körfubolti

Sig­rún getur bætt leikja­metið í stór­leiknum í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir getur slegið leikjametið í kvöld.
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir getur slegið leikjametið í kvöld. Vísir/Bára

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir setur nýtt leikjamet í efstu deild kvenna í körfubolta spili hún með Haukum á móti Keflavík Subway deild kvenna í kvöld.

Þetta er sannkallaður stórleikur því Keflavík og Haukar eru í tveimur efstu sætum deildarinnar og Keflavíkurkonur geta náð fjögurra stiga forystu á toppnum með sigri.

Leikurinn hefst klukkan 20.15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Sigrún Sjöfn hefur leikið 375. leiki í deildinni eða jafnmarga leiki og Birna Valgarðsdóttir sem hefur átt leikjametið í næstum því heilan áratug.

Sigrún hóf tímabilið með Fjölni en skipti í Hauka eftir áramót. Hún hóf einmitt feril sinn í efstu deild með Haukum.

Sigrún var ekki orðin sextán ára gömul þegar hún lék sinn fyrsta leik í efstu deild 7. október 2004 með Haukum á móti ÍS á Ásvöllum.

Hún hefur spilað þessa 375 leiki með sex félögum eða Haukum (57), KR (111), Hamri (20), Grindavík (22), Skallagrími (119) og Fjölni (22).

Sigrún þekkir það vel að mæta Keflavíkurliðinu en þetta verður hennar 56. leikur á móti Keflavíkurkonum í efstu deild.

Sigrún hefur skorað 4159 stig í þessum 375 leikjum eða 11,1 stig eða meðaltali í leik. Aðeins þrjár konur hafa skorað fleiri stig í efstu deild en það eru Birna Valgarðsdóttir (5325), Anna María Sveinsdóttir (5001) og Hildur Sigurðardóttir (4576).

Sigrún á þegar metið yfir flest fráköst (3041) og er sú eina sem hefur tekið yfir þrjú þúsund fráköst í efstu deild kvenna. Hún er líka ásamt Hildi, Helenu Sverrisdóttur og Öldu Leif Jónsdóttur ein af fjórum sem hafa náð þremur tölfræðiþáttum yfir þúsund en Sigrún hefur gefið 1127 stoðsendingar í efstu deild sem er það þriðja mesta.

  • Flestir leikir í efstu deild kvenna:
  • 1. Birna Valgarðsdóttir 375
  • 1. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 375
  • 3. Þórunn Bjarnadóttir 371
  • 4. Hafdís Helgadóttir 366
  • 5. Hildur Sigurðardóttir 347
  • 6. Guðbjörg Sverrisdóttir 338
  • 7. Alda Leif Jónsdóttir 337
  • 8. Petrúnella Skúladóttir 329
  • 9. Anna María Sveinsdóttir 324
  • 10. Kristrún Sigurjónsdóttir 309



Fleiri fréttir

Sjá meira


×