Viðskipti innlent

Musk eyddi tísti um að Haraldur væri „sá versti“

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Haraldur Þorleifsson og Elon Musk hafa átt í ritdeilum í dag.
Haraldur Þorleifsson og Elon Musk hafa átt í ritdeilum í dag. Vísir/Vilhelm/Getty

Auðjöfurinn og eigandi Twitter, Elon Musk, eyddi fyrr í dag tísti þar sem hann segir Harald Þorleifsson, frumkvöðul og fyrrum starfsmann Twitter, „þann versta“. 

„Hann er sá versti, afsakið,“ segir í tísti Musk sem nú hefur verið eytt. Rúm hálf milljón hafði séð tístið áður en því var eytt. Fréttamaður BBC birtir skjáskot af tístinu á Twitter: 

Mikið hefur verið fjallað um ritdeilur þeirra Haraldar og Elon Musk í dag sem hófust með því að Haraldur spurði Musk hvort hann væri í raun rekinn frá fyrirtækinu eða ekki. Haraldur hefur einnig spurt Musk hvort hann fái örugglega ekki greitt vegna uppsagnarinnar samkvæmt ráðningarsamningi. Búist er við að brottrekstur Haraldar muni reynast fyrirtækinu dýrkeyptur.

Í tísti sínu í dag skýtur Haraldur föstum skotum á Elon Musk. Segist hann eiga tvö börn sem hann hitti á hverjum degi. „Ég mæli með því,“ skrifar Haraldur en Elon Musk á sjálfur 10 börn með þremur konum. Hann er einnig þrífráskilinn. 

Í framhaldinu beinir Haraldur sjónum sínum að ummælum Musk um að Haraldur sé „sjálfstætt ríkur“ (e. independently wealthy). Haraldur segir fyrirtæki sitt hafa vaxið hratt og þénað mikla peninga. „Ég býst við því að þú eigir við það þegar þú segir að ég sé sjálfstætt ríkur? Að ég hafi sjálfur byggt upp minn auð, andstætt því að erfa smaragðsnámu,“ skrifar Haraldur og vísar til þess að faðir Musk hafi sjálfur verið auðmaður í Suður-Afríku og átt þar námu. 


Tengdar fréttir

Fylgjendatölur Haraldar rjúka upp

Á síðasta sólarhring hefur Haraldur Þorleifsson, frumkvöðull og fyrrum starfsmaður Twitter, bætt við sig rúmlega 70 þúsund fylgjendum á samfélagsmiðlinum.

Elon Musk hafi stigið í taktíska gildru Haraldar

Almannatengill og æskuvinur Haraldar Þorleifssonar, stofnanda Ueno og fyrrum starfsmanns Twitter, segir að Elon Musk, eigandi Twitter, hafi gengið í gildru með því að svara færslum Haraldar. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×