Viðskipti innlent

Reykja­nes geti orðið kyndil­beri í grænni upp­­byggingu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco.
Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco. Vísir/Arnar

Reykjanesklasinn gekk nýverið frá kaupum á byggingum Norðuráls í Helguvík og er ætlunin að breyta húsnæðinu í svokallaðan grænan iðngarð. Reykjanesið geti orðið kyndilberi í grænni uppbyggingu enda mikil tækifæri á svæðinu.

Þrátt fyrir miklar tilraunir hefur lítið orðið úr stóriðju í Helguvík og bæði möguleg starfsemi kísilvers og álvers þar úr sögunni. Nú hafa hins vegar verið fundin not fyrir húsnæðið sem þar er en nýta á húsnæðið í græna iðngarða.

„Þarna er hellingur af lóðum sem eru lausar og mannvirki sömuleiðis sem hægt er að nýta. Það eru komnar frábærar hugmyndir um að nýta þær í græna iðngarða,“ segir Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco.

Ætlunin sé að hýsa þarna innlend og erlend fyrirtæki sem þurfi rými fyrir sprotastarf, rannsóknar- og tilraunastarfsemi, þróun og framleiðslu, með hringrásarkerfi að leiðarljósi.

„Þar sem verið er að nýta það sem við höfum hingað til kallað úrgang, er verið að nýta í annað.“

Iðngarðarnir eru hluti af enn stærra verkefni, sem Kadeco hefur séð um að þróa, um heildræna uppbyggingu á svæðinu í kring um Keflavíkurflugvöll. Þróunaráætlunin verður kynnt á fimmtudag en hún nær til ársins 2050.

„Helguvíkin og Bergvíkin eru hluti af því svæði, þar sem verða einmitt þessir grænu iðngarðar, og sömuleiðis erum við að leggja til önnur þróunarsvæði eins og á Ásbrú, við flugstöðina og með fram Reykjanesbrautinni,“ segir Pálmi. 

Þar sé meðal annars stefnt á að fjölbreytta atvinnustarfsemi, þjónustumiðstöð fyrir Reykjanesskagann og stórbættar samgöngur, enda mikil tækifæri á svæðinu.

„Við lítum á þetta svæði sem helst vaxtarsvæði Íslands á næstu áratugum.“

Bæði megi fjölga tækifærum tengdum flugvellinum en líka ótengdum honum, svo svæðið verði ekki jafn háð farþegaflugi. Þetta megi allt gera með hringrásina í huga.

„Við getum algjörlega stokkið á þann vagn og orðið kyndilberar í þeirri þróun,“ segir Pálmi. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×