Körfubolti

Hetja helgarinnar: Gaf litlu stelpunum lík­lega eitt­hvað til að öskra yfir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Caitlin Clark fagnar sigurkörfu sinni um helgina og eins og sjá má varð allt vitlaust í stúkunni í höllinni í Iowa City.
Caitlin Clark fagnar sigurkörfu sinni um helgina og eins og sjá má varð allt vitlaust í stúkunni í höllinni í Iowa City. AP/Charlie Neibergall

Körfuboltakonan Caitlin Clark er stórstjarna í bandaríska háskólakörfuboltanum og hún stóð heldur betur undir nafni um helgina.

Clark skoraði þá ótrúlega þriggja stiga körfu á síðustu sekúndu leiksins sem tryggði liði hennar frá Iowa háskólanum sigur á Indiana Hoosiers.

Indiana Hoosiers er í öðru sæti á styrkleikalistanum í háskólaboltanum og þetta var því risastór sigur fyrir Iowa liðið fyrir framan troðfulla fimmtán þúsund manna höll.

Caitlin Clark er svakalega skytta sem hún hefur margoft sýnt en í þessum leik var hún með 34 stig, 9 fráköst og 9 stoðsendingar.

Það eru samt allir að tala um sigurkörfuna. Iowa hafði aðeins nokkrar sekúndur til að búa eitthvað til og það vissu allir í húsinu að Clark væri að fara að fá boltann.

Henni tókst engu að síður að losa sig og ná upp skotinu úr erfiðri stöðu. Það var ekki að spyrja að niðurstöðunni því eins og hjá alvöru hetjum þá fór skotið í körfuna.

Clark fagnaði skiljanlega gríðarlega og þakið sprakk af húsinu.

„Ég hef skorað nokkrar flautukörfur á ferlinum en enga eins og þessa og í þessum kringumstæðum. Þessi er pottþétt númer eitt,“ sagði Caitlin Clark eftir leikinn.

„Þú veist að ég vil gera allt til að kvennakarfan vaxi og dafni og ég er ánægð með það að gefa litlu stelpunum líklega eitthvað til að öskra yfir. Þegar ég var yngri þá var ég að gera það saman fyrir framan sjónvarpið mitt,“ sagði Clark.

Það má sjá körfuna og fagnaðarlætin hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×