Körfubolti

Kings unnu í næststigahæsta leik allra tíma

Smári Jökull Jónsson skrifar
Malik Monk er hér nýbúinn að troða í leiknum í nótt en Kawhi Leonard hjá LA Clippers horfir á.
Malik Monk er hér nýbúinn að troða í leiknum í nótt en Kawhi Leonard hjá LA Clippers horfir á. Vísir/Getty

Leikur Sacramento Kings og Los Angeles Clippers í NBA-deildinni í nótt fer í sögubækurnar sem næststigahæsti leikur allra tíma.

Leikurinn í Los Angeles í nótt var tvíframlengdur og alls voru skoruð 351 stig í leiknum. Sacramento Kings höfðu betur að lokum, unnu 176-175 í leik þar sem liðin skiptust tólf sinnum á forystunni og í tólf skipti var jafnt.

Tveir leikmenn Kings skoruðu meira en fjörtíu stig í leiknum, Malik Monk skoraði 45 stig og De´Aron Fox skoraði 42. Þá skoruðu fimm aðrir leikmenn liðsins yfir tíu stig. Hjá Clippers skoraði Kawhi Leonard 44 stig og Paul George 34.

Eins og áður segir er þetta næststigahæsti leikur allra tíma í NBA-deildinni. Metið yfir flest stig í leik er frá desember 1983 þegar Detroit Pistons vann Denver Nuggets 186-184.

Giannis Antetokounmpo fór meiddur af velli í fyrsta leikhluta þegar Milwaukee Bucks vann 128-99 sigur á Miami Heat. Grikkinn ógurlegi meiddist á hné en hann er í þriðja sæti yfir stigahæstu leikmennina í deildinni og annar á listanum yfir fráköst.

LaMelo Ball skoraði 32 stig og tók 10 fráköst þegar Charlotte Hornets vann 121-113 sigur á Minnesota Timberwolves. Þá vann Phoenix Suns góðan níu stiga sigur á Oklaholma City Thunder, lokatölur þar 124-115.

Devin Booker skoraði 25 stig fyrir Phoenix í leiknum en Kevin Durant lék ekki með Suns.

Washington Wizards - New York Knicks 109-115

Atlanta Hawks - Cleveland Cavaliers 136-119

Chicago Bulls - Brooklyn Nets 131-87

Golden State Warriors - Houston Rockets 116-101

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×