Viðskipti erlent

Banda­rískur milljarða­mæringur fannst látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Thomas H. Lee auðgaðist meðal annars eftir sölu á drykkjarvöruframleiðandanum Snapple.
Thomas H. Lee auðgaðist meðal annars eftir sölu á drykkjarvöruframleiðandanum Snapple. Getty

Bandaríski auðmaðurinn og fjárfestirinn Thomas H Lee, sem var einn af upphafsmönnum skuldsettra yfirtaka í bandarísku viðskiptalífi, hefur fundist látinn, 78 ára að aldri.

Í yfirlýsingu frá fjölskyldu Lee segir að þau séu miður sín vegna fréttanna, en bandarískir fjölmiðlar segja hann hafa svipt sig lífi með skotvopni á skrifstofu sinni á fimmta breiðstræti í Manhattan í New York í gær.

Forbes hefur áætlað að auðæfi Lee séu metin á um tvo milljarða Bandaríkjadala, um 290 milljarða íslenskra króna á núvirði.

Í frétt BBC segir að lögregla hafi verið kölluð út á skrifstofu Lee um klukkan 11 í gærdag að staðartíma eftir tilkynningu. Lee var úrskurðaður látinn á staðnum.

Auk þess að vera brautryðjandi á sviði skuldsettra yfirtaka í viðskiptalífinu var Lee þekktur fyrir að hafa eignast drykkjarframleiðandann Snapple árið 1992 og selja fyrirtækið til Quaker Oats fyrir 1,7 milljarða dala. Var söluupphæðin 32 sinnum hærri en kaupverðið tveimur árum fyrr.

Bandarískir fjölmiðlar segja hann einnig hafa verið þekktan fyrir velgjörðarstörf sín, meðal annars með því styrkja listir og starf Harvard-háskóla.

Lee lætur eftir sig eiginkonuna Ann Tenenbaum og fimm börn.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.