Viðskipti erlent

Saka SBF og fé­laga um hundruð ó­lög­legra kosninga­fram­laga

Kjartan Kjartansson skrifar
Sam Bankman-Fried var fyrir skemmstu kóngur í rafmyntaheiminum. Nú á hann yfir höfði sér áralangt fangelsi fyrir að svíkja viðskiptavini og fjárfesta.
Sam Bankman-Fried var fyrir skemmstu kóngur í rafmyntaheiminum. Nú á hann yfir höfði sér áralangt fangelsi fyrir að svíkja viðskiptavini og fjárfesta. AP/John Minchillo

Bandarískir saksóknarar saka Sam Bankman-Fried, stofnanda rafmyntafyrirtækisins FTX, og samverkamann hans um fleiri en þrjú hundruð ólögleg kosningaframlög. Þeir komust hjá reglum um hámarksframlög til frambjóðenda með því að notast við leppa og félög.

Nýir ákæruliðir í málinu gegn Bankman-Fried, sem oft er nefndur SBF, voru lagðir fram fyrir alríkisdómstól í New York í dag. Fyrir höfðu saksóknarar ákært hann fyrir fjársvik, peningaþvætti og fleiri brot. Hann lýsti sig saklausan af þeim sökum.

Alls eru ólöglegu kosningaframlögin sögð hafa numið tugum milljóna dollara, jafnvirði fleiri milljarða íslenskra króna. Bankman-Fried er sakaður um að hafa notað fé fjárfesta FTX til þess að fjármagna framlögin.

Bankman-Fried var einn af stærstu fjárhagslegu bakhjörlum Demókrataflokksins fyrir þingkosningarnar í haust. Einn nánasti samstarfsmaður hans lét háar fjárhæðir af hendi rakna til repúblikana. Sjálfur hefur Bankman-Fried haldið því fram að hann hafi gefið repúblikönum svipaðar fjárhæðir og demókrötum í gegnum félög sem þurfa ekki að gera grein fyrir framlögum sínum.

Dómari metur nú hvort og hvernig hann eigi að herða skilyrði fyrir því að Bankman-Fried fái að ganga laus gegn tryggingu. Saksóknarar hafa kvartað undan að hann hafi átt í dulkóðuðum samskiptum sem yfirvöld geti ekki fylgst með.

FTX fór á hausinn með braki og brestum í nóvember. Bankman-Fried er sakaður um að hafa notað fjármuni viðskiptavina rafmyntakauphallarinnar til þess að fjármagna áhættufjárfestingar vogunarsjóðs í sinni eigu.


Tengdar fréttir

Gæti stungið FTX-stjóra í steininn til að tak­marka sam­skipti hans

Dómari í máli Sams Bankman-Frieds, stofnanda rafmyntafyrirtækisins FTX, gaf í skyn að hann gæti sent hann í fangelsi til að koma í veg fyrir að hann eigi í frekari samskiptum sem yfirvöld geta ekki fylgst með. Saksóknarar telja ástæðu til að ætla að Bankman-Fried reyni að hafa áhrif á vitni.

Raf­mynta­bransinn í úlfa­kreppu á nýju ári

Samdráttur, uppsagnir og lögsóknir hafa einkennt fyrstu daga nýs árs í rafmyntabransanum sem varð fyrir hverju högginu á fætur öðru í fyrra. Tveir fyrrverandi forstjórar fallinna fyrirtækja standa frammi fyrir sak- og málsóknum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×