Viðskipti erlent

Musk sýknaður af kröfum vegna meintrar markaðs­mis­notkunar

Árni Sæberg skrifar
Elon Musk gengur út úr dómshúsi í San Fransico eftir að hafa verið sýknaður.
Elon Musk gengur út úr dómshúsi í San Fransico eftir að hafa verið sýknaður. Jeff Chiu/AP

Elon Musk, forstjóri bílaframleiðandans Tesla og einn ríkasati maður heimsins, var rétt í þessu sýknaður af öllum kröfum hóps fjárfesta í félaginu vegna meintrar markaðsmisnotkunar. Hópurinn sakaði hann um að hafa blekkt fjárfesta með því að tísta um að hann gæti tekið félagið af markaði árið 2018.

Í færslu á samfélagsmiðlinum Twitter, sem Musk eignaðist fyrir skömmu, sagði hann að hann hefði tryggt sér fjármagn til þess að taka Tesla af markaði. Síðar kom í ljós að ekki hafi verið búið að ganga frá þeim samningi þegar hann tilkynnti það og ekkert varð af kaupunum.

Hópur fjárfesta í félaginu höfðaði málsókn gegn honum í félagi þar sem hann taldi að auðkýfingurinn hefði blekkt fjárfesta með því að dreifa röngum upplýsingum sem gætu haft áhrif á virði bréfa í félaginu. Það er ein helsta tegund markaðsmisnotkunar.

Í frétt AP um málið segir að níu manna kviðdómur í San Fransico í Kaliforníu hafi verið innan við tvær klukkustundir að komast að niðurstöðu um sýknu Musks af öllum kröfum málsóknarfélagsins.

Réttarhöld í málinu tóku þrjár vikur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×