Handbolti

Sjáðu öll sextíu mörk markakóngs HM á aðeins sextíu sekúndum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mathias Gidsel var frábær með danska landsliðinu á heimsmeistaramótinu og það virðast fáir geta hamið þennan einstaka handboltamann þótt að hann sé ekki hár í loftinu.
Mathias Gidsel var frábær með danska landsliðinu á heimsmeistaramótinu og það virðast fáir geta hamið þennan einstaka handboltamann þótt að hann sé ekki hár í loftinu. AP/Liselotte Sabroe

Daninn Mathias Gidsel varð markakóngur og mikilvægasti leikmaður heimsmeistaramótsins í handbolta.

Gidsel skoraði sextíu mörk í níu leikjum og skoraði meira en allir aðrir leikmenn mótsins þrátt fyrir að taka ekki eitt einasta víti á mótinu.

Hann er enn bara 23 ára gamall og leikur með þýska liðinu Füchse Berlin. Danir hafa unnið verðlaun á öllum fjórum stórmótum hans með liðinu. Gidsel lék sinn fyrsta landsleik í nóvember 2020 og hefur hingað til skorað 244 mörk í 48 landsleikjum eða meira en fimm mörk að meðaltali í leik.

Gidsel hefur nú náð því að vera valinn í úrvalsliðið á fjórum stórmótum í röð sem eru jafnframt hans fyrstu fjögur stórmót.

Gidsel nýtti 75 prósent skota sína á nýloknu heimsmeistaramóti en samkvæmt opinberri tölfræði mótsins þá skoraði hann sextán mörk með langskotum, sextán mörk úr hraðaupphlaupum, fjórtán mörk eftir gegnumbrot, tólf mörk af línu og loks tvö mörk í tómt mark.

Gidsel skoraði ekki aðeins sextíu mörk því hann átti einnig 42 stoðsendingar. Hann kom því að meira en hundrað mörkum í níu leikjum Dana á mótinu.

Danska ríkisútvarpið tók saman öll sextíu mörk Gidsel á mótinu og snöggklippti þau saman eins og sjá má hér fyrir ofan með því að fletta yfir á næstu mynd.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.