Handbolti

Vill ekki hafa meidda fyrirliðann sinn á bekknum hjá sér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jim Gottfridsson er úr leik á þessu heimsmeistaramóti og verður upp í stúku í leiknum í kvöld.
Jim Gottfridsson er úr leik á þessu heimsmeistaramóti og verður upp í stúku í leiknum í kvöld. Getty/Annelie Cracchiolo

Sænski landsliðsþjálfarinn Glenn Solberg ætlar ekki að hafa fyrirliðann Jim Gottfridsson með sér á bekknum í undanúrslitaleiknum á móti Frökkum á HM í handbolta í kvöld.

Gottfridsson, sem var valinn besti leikmaður EM í fyrra og er í hópi bestu leikmanna heims, handarbrotnaði í leiknum á móti Egyptum í átta liða úrslitunum. Hann verður því ekki meira með á mótinu.

Gottfridsson er fyrirliði og leiðtogi sænska liðsins en landsliðsþjálfarinn leyfir honum samt ekki að vera á bekknum í þessum mikilvæga leik.

„Við getum ekki verið með meidda leikmenn á bekknum, það er andstaða alls þess sem við erum að gera. Jim hefur sína hæfileika og er mjög ráðsnjall maður þannig að við munum sakna hans,“ sagði Glenn Solberg við Radiosporten.

Meiðslin er afar svekkjandi fyrir Gottfridsson sem hafði dreymt um að spila úrslitaleik HM á heimavelli.

Gottfridsson hefur leikið með sænska landsliðinu frá 2012 og var í silfurliði Svía á síðasta heimsmeistaramóti. Hann vann síðan gull með sænska liðinu á Evrópumótinu í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×