Umræðan

„Light“ útgáfa af upplýsingaskyldu skráðra félaga í nýrri tillögu ESB

Andri Fannar Bergþórsson skrifar

Persónulega hef ég verið á þeirri skoðun að gengið hafi verið of langt í að skylda skráð félög til að birta svokallaðar innherjaupplýsingar opinberlega. Reglurnar eru þannig í dag að skráð félög þurfa að birta innherjaupplýsingar opinberlega sem eru jafnvel ekki endanlegar (eitthvað sem á eftir að gerast eða leiða til lykta). Um leið og tekin er t.d. ákvörðun um að skipta um forstjóra í félagi verður upplýsingaskyldan virk, jafnvel þótt ekki sé búið að ganga frá starfslokunum eða finna annan í forstjórastólinn. Vissulega er möguleiki fyrir félagið að taka ákvörðun um frestun á eigin ábyrgð að uppfylltum ákveðnum skilyrðum í löggjöfinni. En sá möguleiki er ekki alltaf til staðar.

Skýrasta dæmið um slíkt er undirbúningur að fjárhagsuppgjöri skráðra félaga. Ef í ljós kemur í uppgjörsvinnunni töluvert betri eða verri afkoma en opinberar spár félagsins gerðu ráð fyrir getur félagið ekki beðið með að birta þær upplýsingar opinberlega þar til uppgjörið hefur verið klárað og endurskoðandi og stjórn félagsins hefur samþykkt uppgjörið. Eimskipafélag Íslands hf. (Eimskip) fékk árið 2017 hæstu stjórnvaldssekt sem Fjármálaeftirlitið hafði beitt á þeim tíma (50 milljónir króna) vegna þess að félagið birti of seint upplýsingar um mikið bætta rekstrarafkomu félagsins sem komu fram í fyrstu drögum að árshlutauppgjöri. Eimskip hafði hugsað sér að birta þær upplýsingar með árshlutauppgjörinu sex dögum síðar, enda fóru uppgjörsdrögin í gegnum sex útgáfur áður en þau voru samþykkt af stjórn félagsins og birt opinberlega. Eimskip hefði þurft að birta upplýsingarnar um bætta rekstrarafkomu félagsins, sem komu fram í fyrstu drögum uppgjörsins, opinberlega en ekki bíða með að klára uppgjörsvinnuna.

Reglurnar eru þannig í dag að skráð félög þurfa að birta innherjaupplýsingar opinberlega sem eru jafnvel ekki endanlegar (eitthvað sem á eftir að gerast eða leiða til lykta).

Spyrja má hvort gengið sé þarna of langt í kröfum til skráðra félaga til að birta innherjaupplýsingar opinberlega. Sem betur fer hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) áttað sig á þessu og lagt fram tillögu til breytinga á Markaðssvikareglugerðinni (MAR), en sú reglugerð var innleidd á Íslandi í september 2021. Segja má að með tillögunni sé verið að leggja til að taka upp „light“ útgáfu af upplýsingaskyldunni.

Upplýsingaskyldan takmörkuð við endanlegar innherjaupplýsingar í nýju tillögunni

Markmiðið með upplýsingaskyldunni er annars vegar að jafna stöðu fjárfesta varðandi aðgengi að innherjaupplýsingum á markaði og hins vegar að draga úr líkum á innherjasvikum. Innherjasvik fela í sér að innherji (aðili sem býr yfir innherjaupplýsingum) notfæri sér innherjaupplýsingar í viðskiptum með skráða fjármálagerninga, t.d. hlutabréf sem eru skráð í Kauphöllinni, oftast í þeim tilgangi að hagnast á viðskiptunum. Seinna markmiðið með upplýsingaskyldunni (að minnka líkur á innherjasvikum) virðist hafa gert það að verkum að löggjafinn hefur gengið svona langt í að skylda skráð félög til að birta innherjaupplýsingar sem hafa ekki enn orðið að veruleika. Þetta getur leitt til þess að félög þurfa að birta upplýsingar opinberlega sem geta svo breyst nokkrum dögum síðar, t.d. þegar birtar eru upplýsingar úr uppgjörsdrögum.

Framkvæmdastjórnin brást við þessu 7. desember sl. með því að leggja fram tillögu að frumvarpi til að breyta nokkrum ákvæðum MAR, þ.á m. reglunni um upplýsingaskyldu skráðra félaga vegna innherjaupplýsinga í 17. gr. MAR. Breytingartillagan snýr að því að takmarka upplýsingaskyldu félaga við endanlegar innherjaupplýsingar, þ.e.a.s. innherjaupplýsingar sem varða aðstæður eða atburð sem hefur átt sér stað eða verið til lykta leiddur. Með tillögunni er ekki verið að þrengja hvað teljist vera innherjaupplýsingar heldur aðeins hvaða upplýsingar skráð félög þurfa að birta opinberlega. Upplýsingar sem fela í sér þrepaskipt ferli, til dæmis samrunaviðræður eða uppgjörsvinna, myndu ekki virkja upplýsingaskylduna fyrr en þær yrðu endanlegar.

Tillagan myndi því létta töluvert á kröfum til skráðra félaga á Íslandi og annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu um að birta innherjaupplýsingar.

Hvaða þýðingu hefur þessi tillaga fyrir skráð félög verði hún samþykkt?

Ef tillaga framkvæmdastjórnarinnar verður samþykkt hvað varðar upplýsingaskyldu skráðra félaga liggur fyrir að innleiða þurfi breytinguna á einhverjum tímapunkti í íslenskan rétt. Slíkt myndi hafa í för með sér að skráð félög þyrftu ekki að lengur að birta innherjaupplýsingar opinberlega fyrr en þær verða endanlegar. Í tilviki Eimskips hefði upplýsingaskyldan að öllum líkindum ekki orðið virk fyrr en uppgjörið var samþykkt af stjórn félagsins. Tillagan myndi því létta töluvert á kröfum til skráðra félaga á Íslandi og annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu um að birta innherjaupplýsingar.

Þrátt fyrir að upplýsingaskyldan yrði ekki virk fyrr en innherjaupplýsingar yrðu endanlegar myndi bann við innherjasvikum og ólögmætri miðlun innherjaupplýsinga gilda fullum fetum frá því innherjaupplýsingar myndast hjá félagi, jafnvel þótt þær séu ekki endanlegar. Framangreint hefði í för með sér að jafnvel þótt upplýsingaskyldan virkjaðist ekki vegna samrunaviðræðna hjá skráðu félagi mætti til dæmis ekki notfæra sér slíkar upplýsingar í viðskiptum eða miðla áfram til vinar. Auk þess þyrftu félög að tryggja trúnað um innherjaupplýsingarnar þar til upplýsingar um samrunann hafa verið birtar opinberlega.

Höfundur er dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík og lögmaður hjá ADVEL lögmönnum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×