Körfubolti

Kjósa í liðin sín í Stjörnuleik NBA rétt fyrir leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það verður nokkur spenna rétt fyrir Stjörnuleik NBA í ár þegar fyrirliðarnir kjósa leikmenn í sín lið.
Það verður nokkur spenna rétt fyrir Stjörnuleik NBA í ár þegar fyrirliðarnir kjósa leikmenn í sín lið. Getty/Streeter Lecka

NBA-deildin hefur ákveðið að breyta aðeins fyrirkomulaginu á Stjörnuleiknum sínum sem fer 19. febrúar næstkomandi í Salt Lake City í Utah fylki.

Leikmenn Stjörnuleiksins munu ekki vita í hvoru liðinu þeir spila fyrr en skömmu fyrir leik. Þeir vita að þeir eru að fara spila í leiknum en bara ekki í hvaða liði.

Líkt og undanfarin fimm tímabil þá munu fyrirliðar kjósa leikmennina á víxl í sín lið en fyrirliðarnir eru þeir sem fá flest atkvæði í Vestur- og Austurdeildinni.

Hingað til hafa þeir kosið í liðin sín mörgum dögum fyrir leikinn en það breytist núna.

Fyrirliðarnir í ár verða líklegast LeBron James hjá Los Angeles Lakers annars vegar og hins vegar Giannis Antetokounmpo hjá Milwaukee Bucks eða Kevin Durant hjá Brooklyn Nets.

LeBron James hefur verið fyrirliði í öll skiptin og er með langflest atkvæði enn á ný. Durant fékk flest atkvæði austan megin til að byrja með en Antetokounmpo var búinn að ná honum.

Það kemur í ljós annað kvöld hverjir verða fyrirliðar liðanna tveggja sem og hverjir fá flest atkvæða og tryggja sér sæti í fimm manna byrjunarliðinu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×