Handbolti

Biður þjóðina afsökunar

Stefán Árni Pálsson skrifar
Elliði Snær í leiknum gegn Svíum í dag. Hann skoraði 3 mörk úr 7 skotum.
Elliði Snær í leiknum gegn Svíum í dag. Hann skoraði 3 mörk úr 7 skotum. vísir/vilhelm

„Mér líður illa og ég vill byrja á því að segja sorry við þjóðina,“ segir Elliði Snær Viðarsson, leikmaður íslenska landsliðsins, sem tapaði fyrir Svíum 35-30 í öðrum leik liðsins í milliriðlinum.

Vonir Íslands að komast í 8-liða úrslitin eru í litlar sem engar eftir úrslitin.

„Tilfinningin mín er eins og ég hafi tapað leiknum sjálfur. Ég klúðra held ég fjórum eða fimm færum einn á móti marki og mér líður bara mjög illa.“

Elliði segist í raun sjá eftir því að hafa æst upp Andreas Palicka þegar þeir lágu á gólfinu og allt varð vitlaust. Það hafi algjörlega kveikt í markverðinum.

„Hann var bara frábær í dag og hann vann þennan leik, það er hægt að segja það. Svona er bara boltinn, við gefum allt og svo er bara annar leikur á sunnudaginn og þá gefum við líka allt. Það skiptir engu máli hvaða leikur það er, við förum í alla leiki til þess að vinna.“

Elliði segir að tapið fyrir Ungverjum sitji mjög í mönnum.

„Við erum búnir að tapa tveimur mikilvægustu leikjunum og það svíður.

Klippa: Viðtal við Elliða Snæ eftir tapið gegn Svíum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×