Ríkisútvarpið hélt uppteknum hætti í gær þegar rætt var við Ásgeir Brynjar Torfasyn, doktor í fjármálum, í tíufréttum sjónvarpsins um sáttarferlið sem er hafið milli fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og Íslandsbanka vegna bresta í framkvæmd á útboðinu. Fréttin er sérkennileg fyrir þær sakir, líkt og svo oft áður, að engin innistæða var fyrir helstu fréttapunktunum.

Ásgeir Brynjar kvaðst ekki kannast við að hafa heyrt orðið „sáttaferli“ notað um eftirlit fjármálaeftirlitsins með bankastarfsemi og var þessum ummælum slegið upp í fyrirsögn. Nú liggur hins vegar fyrir að fjármálaeftirlitið hefur skýra heimild til að ljúka máli með sátt og eru meira en hundrað dæmi á síðustu fimmtán árum um að mál hafi ratað í þann farveg.
Fyrir rúmu ári síðan, svo eitt dæmi sé tekið, gerðu fjármálaeftirlitið og SaltPay samkomulag um að ljúka máli með sátt vegna brota greiðslumiðlunarfélagsins á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti. Með samkomulaginu samþykkti félagið að greiða sekt að fjárhæð 44,3 milljónir króna til ríkissjóðs og framkvæma fullnægjandi úrbætur innan tilgreindra tímamarka.
Þegar ríkisfréttastofan gerist ítrekað sek um að birta gífuryrði og rangfærslur sem auðvelt er að hrekja má sannarlega efast um það hvort skattpeningunum sé vel varið.
Ásgeir Brynjar sagði jafnframt að tilkynning bankans til Kauphallarinnar benti til þess að fjármálaeftirlitið hefði gefið til kynna sektargreiðslur og þar hlyti að vera undir „alvarleg upphæð“. En þvert á spá doktorsins sýnir reynslan að sektargreiðslur eru oftast minni háttar í samhengi hlutanna. Á árunum 2007 til 2019 skiluðu 113 sáttargreiðslur ríkissjóði ekki nema 278 milljónum króna, auk þess sem heimild fjármálaeftirlitsins til sáttar nær ekki til brota sem teljast meiri háttar.
Líklega verður sáttargreiðslan nokkrir tugir milljóna en hæsta stjórnvaldssekt sem fjármálaeftirlitið hefur lagt á fjármálafyrirtæki var 88 milljóna króna sekt á Arion banka árið 2020 fyrir að upplýsa ekki tímanlega um hópuppsagnir hjá bankanum.
Þá sagði Ásgeir Brynjar að stjórnendur Íslandsbanka ættu ekki eftir að taka undir þá skilgreiningu að með sáttarferli væru þeir að viðurkenna brot af hálfu bankans. Það stendur hins vegar skýrt í lagaheimildinni að í sátt felist að málsaðili hafi gengist við að hafa brotið af sér og upplýst að fullu um brotið.
Eflaust má réttlæta tilvist fréttastofu Ríkisútvarpsins þannig að mikilvægt sé að halda úti burðugri fréttastofu sem er ekki bundin markaðslögmálum. Slík fréttastofa ætti, að minnsta kosti á blaði, að hafa svigrúm til að kafa djúpt ofan í hin ýmsu mál og staðreyna fullyrðingar. En þegar ríkisfréttastofan gerist ítrekað sek um að birta gífuryrði og rangfærslur sem auðvelt er að hrekja (kannski vegna þess að ávallt er leitað til sömu viðmælenda) má sannarlega efast um það hvort skattpeningunum sé vel varið.
Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.