Handbolti

Sigfús ósáttur við línumennina: „Þeir gripu illa og skotnýtingin var mjög léleg“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elliði Snær Viðarsson skoraði samtals tvö mörk í leikjunum tveimur gegn Þýskalandi.
Elliði Snær Viðarsson skoraði samtals tvö mörk í leikjunum tveimur gegn Þýskalandi. getty/Marvin Ibo Guengoer

Sigfús Sigurðsson var ekki ánægður með frammistöðu línumanna íslenska handboltalandsliðsins gegn því þýska um helgina.

Ísland vann fyrri leikinn gegn Þýskalandi, 30-31, en strákarnir hans Alfreðs Gíslasonar svöruðu fyrir sig með sigri í gær, 33-31.

Línuspil íslenska liðsins var ekki upp á marga fiska í leikjunum tveimur. Til marks um það skoruðu línumennirnir, þeir Elliði Snær Viðarsson, Arnar Freyr Arnarsson og Ýmir Örn Gíslason, aðeins fimm mörk í níu skotum um helgina. 

Sigfús var til viðtals í Handkastinu í gær þar sem hann fór yfir leikina tvo gegn Þýskalandi. Frammistaða línumannanna stakk í augu hans.

„Í tveimur heilum landsleikjum, að vörnin sé bara stoppuð þrisvar sinnum af svo menn geti komist í gegn, er alls ekki nógu gott, hvort sem það er línu- eða hornamaður inni á línunni. Bara þrisvar sinnum var búið til alvöru gat til þess að leikmenn komist í gegn,“ sagði Sigfús.

„Svo var nýtingin hjá línumönnunum alveg skelfileg. Þeir gripu illa og skotnýtingin var mjög léleg.“

Sigfús var heldur ekki nógu ánægður með íslensku vörnina í leikjunum tveimur og samvinnu hennar og markvarðanna.

Gamli línumaðurinn var hins vegar ánægður með frammistöðu leikstjórndanna Janusar Daða Smárasonar og Gísla Þorgeirs Kristjánssonar og sérstaklega kátur með hvernig hægri hornamennirnir spiluðu. Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði átta mörk á laugardaginn og Sigvaldi Guðjónsson lék sama leik í gær.

Hlusta má á Handkastið í spilaranum hér fyrir ofan. Viðtalið við Sigfús hefst á 19:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×