Körfubolti

Tryggvi og félagar sóttu mikilvægan sigur í botnbaráttunni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Tryggvi Snær í leik með Zaragoza.
Tryggvi Snær í leik með Zaragoza. Vísir/Getty

Tryggvi Snær Hlinason og félagar hans í Zaragoza unnu afar mikilvægan sjö stiga sigur er liðið heimsótti Manresa í spænsku ACB-deildinni í körfubolta í dag, 65-72.

Fyrir leikinn voru bæði lið með sex stig í 15. og 16 sæti, jafn mörg stig og botnliðin tvö. Það var því ljóst að um gríðarlega mikilvægan leik var að ræða.

Heimamenn í Manresa byrjuðu mun betur og leiddu með tíu stigum að loknum fyrsta leikhluta og juku forskot sitt lítillega í öðrum leikhluta. Staðan var því 40-27, Manresa í vil, þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Tryggvi og félagar mættu þó mun ákveðnari til leiks í síðari hálfleik og snéru leiknum sér í hag. Zaragoza hafði eins stigs forystu fyrir lokaleikhlutann og vann að lokum mikilvægan sjö stiga sigur, 65-72.

Tryggvi skoraði tvö stig fyrir liðið í dag, ásamt því að taka sjö fráköst og gefa eina stoðsendingu. Zaragoza situr nú í 15. sæti deildarinnar með átta stig, tveimur stigum fyrir ofan fallsvæðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×