Viðskipti erlent

Segja upp 18 þúsund manns

Atli Ísleifsson skrifar
Andy Jassy tók við stöðu forstjóra Amazon af Jeff Bezos síðla árs 2020.
Andy Jassy tók við stöðu forstjóra Amazon af Jeff Bezos síðla árs 2020. EPA

Forstjóri bandaríska vefverslunarrisans Amazon segir að til standi að segja upp 18 þúsund manns sem hluti af aðgerðum til að draga úr rekstrarkostnaði.

Alls starfa um 1,5 milljónir manns hjá Amazon að því er segir í frétt BBC.

Forstjórinn Andy Jassy segir að ákveðið hafi verið að tilkynna opinberlega frá fyrirhuguðum uppsögnum eftir að „einn úr hópi [háttsettra starfsmanna] hafi lekið upplýsingunum til utanaðkomandi aðila“.

Amazon bætist með þessu í hóp tæknirisa sem segir upp starfsfólki í stórum stíl vegna hækkandi verðlags sem hefur leitt til þess að neytendur haldi í auknum mæli að sér höndum.

Í minnisblaði Jassy kemur fram að meirihluti þeirra sem sagt verður upp séu í verslanadeild fyrirtækisins, auk mannauðsdeildar. Ekki er tekið fram fram í hvaða löndum starfsfólki verður sagt upp, en Jassy gaf í skyn að það verði meðal annars í Evrópu. Byrjað verði að hafa samband við starfsfólk eða fulltrúa þeirra vegna fyrirhugaðra uppsagna þann 18. janúar.

Stjórnendur fyrirtækisins höfðu gefið í skyn á síðasta ári að til stæði að fækka starfsfólki án þess þó að nefna nokkurn fjölda í því samhengi. Áður hafði fyrirtækið stöðvað allar nýráðningar og sömuleiðis stöðvað framkvæmdir við stækkun vöruhúsa fyrirtækisins víða um heim. Var nefnt í því samhengi að fyrirtækið mæti það sem svo að of geist hafi verið farið í ráðningar á tímum heimsfaraldursins. Alger sprenging varð í netverslun í heimsfaraldrinum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×