Viðskipti innlent

Sex hóp­upp­sagnir á ný­liðnu ári

Atli Ísleifsson skrifar
Unnur Sverrisdóttir er forstjóri Vinnumálastofnunar.
Unnur Sverrisdóttir er forstjóri Vinnumálastofnunar. Vísir/Egill

Engar tilkynningar um hópuppsagnir bárust Vinnumálastofnun í nýliðnum desembermánuði. Tilkynnt var um sex hópuppsagnir á árinu 2022 þar sem 229 var sagt upp störfum.

Þetta kemur fram á vef Vinnumálastofnunar. Fram kemur í umræddum hópuppsögnum hafi 87 misst vinnuna í fiskvinnslu, 42 í félagastarfsemi og 39 í opinberri þjónustu.

Gera má ráð fyrir að hópuppsögnin í „félagastarfsemi“ hafi verið í Eflingu síðasta vor. Hópuppsögnin í opinberri þjónustu tengist flutningi fasteignaskrár og fasteignamats frá Þjóðskrá til Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Var þar umræddu starfsfólki sagt upp, störf þeirra lögð niður hjá Þjóðskrá og viðkomandi boðið starf hjá HMS.

Um 78 prósent tilkynntra hópuppsagna á árinu 2022 voru á höfuðborgarsvæðinu, og um 22 prósent á Suðurnesjum.

Fram kemur að 228 af 229 þeirra hópuppsagna sem tilkynnt var um á nýliðnu ári hafi komið til framkvæmda á síðasta ári en ein hópuppsagnanna kemur til framkvæmda á árinu 2023.

„Samtals hefur 22.075 manns verið sagt upp í hópuppsögnum á tímabilinu 2008 til 2022. Flestir misstu vinnuna á árinu 2020 eða alls 8.789 manns og á þriggja mánaða tímabili frá desember 2008 til febrúar 2009 og svo næstu 3 mánuði þar á eftir. Ekki hefur færri verið sagt upp störfum í hópuppsögnum á tímabilinu 2008 til 2022 en á árinu 2022 eða 229 en næst fæstum eða 231 var sagt upp störfum í hópuppsögnum á árinu 2014,“ segir í tilkynningunni.

Með hópuppsögn er átt við uppsagnir atvinnurekanda á fastráðnum starfsmönnum þar sem fjöldi starfsmanna sem sagt er upp á þrjátíu daga tímabili er að minnsta kosti 10 starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa 21-99 í vinnu, minnst 10% starfsmanna í fyrirtækjum með 100-299 í vinnu eða minnst 30 starfsmenn þar sem venjulega eru 300 eða fleiri.


Tengdar fréttir

Til­kynnt um eina hóp­upp­sögn í júní

Tilkynnt var um eina hópuppsögn til Vinnumálastofnunar í júní þar sem 39 starfsmönnum var sagt upp störfum í opinberri stjórnsýslu vegna flutninga á starfsemi milli stofnana.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×