Handbolti

Logi Geirsson segir að Ísland sé með nógu gott lið til að vinna HM í handbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Logi Geirsson á verðlaunapallinum á Ólympíuleikunum í Peking 2008 ásamt þeim Sigfúsi Sigurðssyni og Björgvini Páli Gústavssyni. Björgvin Páll er enn að spila með landsliðinu.
Logi Geirsson á verðlaunapallinum á Ólympíuleikunum í Peking 2008 ásamt þeim Sigfúsi Sigurðssyni og Björgvini Páli Gústavssyni. Björgvin Páll er enn að spila með landsliðinu. Getty/Vladimir Rys

Logi Geirsson vann á sínum tíma tvenn verðlaun með íslenska landsliðinu í handbolta en núna hefur handboltasérfræðingur Seinni bylgjunnar gríðarlega mikla trú á strákunum okkar á heimsmeistaramótinu í handbolta sem hefst í næstu viku.

Ísland hóf lokaundirbúning sinn á mánudaginn og spilar um helgina tvo æfingarleiki við Þýskaland úti í Þýskalandi. Fyrsti leikurinn á HM er síðan á móti Portúgal eftir átta daga.

Logi verður sérfræðingur RÚV á mótinu og hann er ekki að draga úr væntingum til liðsins í viðtali á heimasíðu Ríkisútvarpsins.

Logi var spurður að því hvort að íslenska landsliðið gæti unnið mótið.

„Já, algjörlega. Ég myndi segja að við værum í topp fjórir, í því að vinna þetta mót. Það vita það allir sem koma nálægt þessu að þetta verður mjög erfitt en að mínu mati er þessi hópur nógu góður til þess að vinna þetta mót. Við erum búnir að ná silfri og bronsi, er þá ekki kominn tími til að þessir strákar reyni við gullið. Ég held að allir leikmenn fari inn í þetta mót þannig,“ sagði Logi Geirsson í viðtalið við RÚV.

Besti árangur Íslands á HM í handbolta er fimmta sætið á HM í Kumamoto 1997 en liðið hefur síðan þrisvar sinnum endaði í sjötta sæti, síðast þegar mótið fór síðast fram í Svíþjóð árið 2011.

Logi viðurkennir þó að íslenska liðið sé í sterkasta riðlinum á heimsmeistaramótinu en jafnframt segir hann Ísland vera með sterkasta liðið í riðlinum.

„Portúgalarnir hafa aðeins dalað, þeir voru komnir með marga leikmenn í sterkustu lið heims en þeir sem einstaklingar hafa ekki verið að spila vel. Sama með Ungverjana, okkur tókst að vinna þá fyrir framan 20 þúsund manns á þeirra heimavelli. Við erum búnir að stinga þá svolítið af. Suður-Kórea er svo óskrifað blað. En það er ekkert gefið í þessu,“ sagði Logi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×