Viðskipti innlent

Við­­stöðu­­lausar verð­hækkanir dynji á lands­­mönnum

Fanndís Birna Logadóttir og Viktor Örn Ásgeirsson skrifa
Auður Alfa Ólafsdóttir hagfræðingur hjá ASÍ segir að setja þurfi ítrekaðar verðhækkanir í samhengi við stöðuna í þjóðfélaginu.
Auður Alfa Ólafsdóttir hagfræðingur hjá ASÍ segir að setja þurfi ítrekaðar verðhækkanir í samhengi við stöðuna í þjóðfélaginu. ASÍ/Rut Sigurðardóttir

Neytendur finna vel fyrir verðhækkunum fyrir þessi jólin, sérstaklega þegar kemur að matnum. Verðbólgan er farin að bíta hressilega og hagfræðingur ASÍ segir viðstöðulausar hækkanir dynja á landsmönnum á sama tíma og arðsemi fyrirtækja eykst.

Verðbólgan jókst um 0,3 prósentustig í desember og mælist nú 9,6 prósent. Hún hefur ekki verið meiri síðan í ágúst en í janúar mældist ársverðbólga 5,7 prósent. Aukninguna núna má einna helst rekja til verðhækkana á flugfargjöldum.

Auður Alfa Ólafsdóttir hagfræðingur ASÍ segir að ekki sé mikið meira svigrúm fyrir verðhækkunum til að mynda á nauðsynjavörum, sem bitni helst á þeim sem verst standa. Það sé nú í höndum fyrirtækja að gera það sem þau geta til að ná verðbólgunni niður.

„Þannig að þegar við erum að sjá verð á vöru og þjónustu hækka viðstöðulaust á sama tíma og afkoma fyrirtækja er þetta góð, þá auðvitað liggur það fyrir að fyrirtæki eru að ná fram þessari auknu arðsemi með óþarfa verðhækkunum. Og það er auðvitað eitthvað sem við munum ekki láta óátalið og eitthvað sem þarf að fara að vinna gegn,“ segir Auður Alfa. Hún bætir við að það eigi ekki síst við nú, þegar jólin eru á næsta leiti.

Verð á mat og drykkjarvöru átti hlut í því að verðbólgan jókst milli mánaða. Jólamaturinn hækkar mikið milli ára og er það þá einna helst kjötið.

Átti von á tuttugu þúsund kalli

Fréttastofa ræddi við landsmenn sem voru að klára jólainnkaupin og voru allir á sama máli. Verðbólgan biti hressilega.

„Þetta var þrjátíu þúsund kall, ég átti von á kannski tuttugu þúsund kalli. Ég held að það hafi verið karfan í fyrra,“ sagði Ársæll Sigurlaugar Níelsson, sem var að klára jólainnkaupin í dag.

Sanna Magdalena Mörtudóttir tekur í sama streng.

„Já, og í rauninni allt saman [hefur hækkað]. Maður fer að kaupa eitthvað smá og þetta er bara rándýrt. En það er náttúrulega mismunandi hverjir eru í góðri stöðu til að geta greitt fyrir matinn og hverjir ekki.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×