Handbolti

Arnór Snær: Sennilega minn besti leikur en hefði viljað sigur

Andri Már Eggertsson skrifar
Arnór Snær Óskarsson fór á kostum og skoraði 13 mörk.
Arnór Snær Óskarsson fór á kostum og skoraði 13 mörk. Vísir/Hulda Margrét

Valur tapaði fyrir Ystad 29-32 í Evrópudeildinni í handbolta. Þrátt fyrir tap fór Arnór Snær Óskarsson, leikmaður Vals, á kostum og skoraði 13 mörk.

„Við vorum klaufar í byrjun seinni hálfleiks þar sem við vorum í yfirtölu en nýttum hana illa og klikkuðum á dauðafærum og þá refsar eins gott lið og Ystad er,“ sagði Arnór Snær Óskarsson svekktur í viðtali eftir leik.

Valur spilaði vel í fyrri hálfleik og þá sérstaklega Arnór Snær sem gerði fimm af fyrstu átta mörkum Vals.

„Það var svekkjandi að fá á sig mark rétt áður en flautað var til hálfleiks. Ystad komst fimm mörkum yfir um miðjan seinni hálfleik en við komum til baka sem mér fannst vel gert. Tryggvi [Garðar Jónsson] kom vel inn í seinni hálfleik með þvílíkar neglur og það er gott að eiga hann inni.“

„Það var síðan mjög svekkjandi að ná að minnka forskotið niður í eitt mark en síðan fórum við illa með dauðafæri sem má ekki í svona leikjum.“

„Við erum með góða breidd og það kemur maður í manns stað þegar menn eru meiddir en ég var sáttur að hafa komið til baka en endaði síðan svekktur að hafa tapað þessum leik.“

Arnór Snær Óskarsson spilaði líklegast sinn besta leik á ferlinum í kvöld þar sem hann skoraði 13 mörk. Arnór var þó fyrst og fremst svekktur með tap og vildi lítið hæla sjálfum sér.

„Ég hitti á minn dag og strákarnir spiluðu vel upp á mig en það var ekki nóg og ég hefði viljað sigur. Ætli þetta hafi ekki verið minn besti leikur á ferlinum. Allavega einn af þeim,“ sagði Arnór Snær Óskarsson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×