Viðskipti innlent

Spá 9,6 prósent verð­bólgu í desember

Bjarki Sigurðsson skrifar
Því er spáð að verðbólga hækki um þrjú prósentustig.
Því er spáð að verðbólga hækki um þrjú prósentustig. Vísir/Vilhelm

Hagfræðideild Landsbankans spáir því að verðbólgan hækki um þrjú prósentu stig í desember og verði 9,6 prósent. Þá er því spáð að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,55 prósent milli mánaða. Þrír undirliðir hafa hvað mest áhrif á spáða hækkun. 

Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans sem kom út fyrr í dag. Þar kemur fram að VNV hafi hækkað um 0,29 prósent í nóvember og að verðbólga hafi hjaðnað úr 9,4 prósentum í 9,3 prósent. Niðurstöðurnar voru svipaðar og deildin átti von á. 

Bankinn telur að þrír undirliðir muni hafa mest áhrif á hækkandi VNV. Það eru reiknuð húsaleiga sem spáð er að hækki um 0,6 prósent milli mánaða, kaup á nýjum bílum sem hækki um 1,3 prósent milli mánaða og flugfargjöld sem hækki um 19,5 prósent milli mánaða. Þessir þrír undirliðir skýra 0,57 prósentustig af 0,68 prósenta hækkun VNV eða alls 78 prósent. 

Fasteignaverð kemur beint inn í útreikning Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs í gegnum reiknað endurgjald vegna búsetu í eigin húsnæði. 

„Mikil hækkun á húsnæðisverði hefur verið einn megindrifkraftur verðbólgunnar undanfarið ár. Þegar mest gekk á í sumar fór hækkun á markaðsverði húsnæðis, sem Hagstofan mælir og notar í útreikningi á reiknaðri húsaleigu, hæst í 3,2% milli mánaða og tæplega 25% milli ára. Beint framlag húsnæðisverðs til vísitölu neysluverðs fór hæst í 4,2 prósentustig í ágúst og skýrði þá rétt yfir 40% af ársverðbólgunni,“ segir í Hagsjánni. 

Í haust sáust fyrst merki þess að byrjað væri að hægja á markaðnum. Í september stóð markaðsverð húsnæðis í stað og hækkaði það í október og nóvember. Þrátt fyrir þessar hækkanir gerir bankinn ráð fyrir því að loks sé farið að hægjast um á markaðnum. 

„Þó er það svo, að eftir að hafa haft áhrif til lækkunar samfellt síðan í janúar 2018, hefur framlag vaxtabreytinga verið til hækkunar síðustu þrjá mánuði. Við eigum von á að svo verði áfram og að á næstu mánuðum muni framlag vaxtabreytinga til hækkunar aukast nokkuð,“ segir í Hagsjánni. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×