Innherji

Seðlabankinn telur sig vera að „hjálpa til“ við kjarasamninga með hækkun vaxta

Hörður Ægisson skrifar
Við höfum það lögbundna hlutverk að tryggja verðstöðugleika og teljum að við séum að styðja við kjarasamninga með aðgerðum okkar“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Við höfum það lögbundna hlutverk að tryggja verðstöðugleika og teljum að við séum að styðja við kjarasamninga með aðgerðum okkar“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.

Þróunin í efnahagsmálum varð með öðrum hætti en Seðlabankinn vonaðist til eftir síðasta vaxtaákvörðunarfund í október og hefur bankinn áhyggjur af einkaneyslunni sem sé komin á það stig að hún valdi viðskiptahalla. Það setur þrýsting á gengi krónunnar, sem gerir það erfiðara um vik að ná niður verðbólgu, og kann að leiða til meiri vaxtahækkana en ella. Seðlabankastjóri segir það ranga túlkun á nýlega birtri rannsóknarritgerð að ekki sé tölfræðilegt orsakasamband milli launa og verðlags heldur sýni hún fremur að „rétt framkvæmdar“ launahækkanir búi ekki til verðbólgu.

„Við töldum að við þyrftum að gera aðeins meira,“ útskýrir Ásgeir Jónsson aðspurður hvort ákvörðun peningastefnunefndar um að hækka vexti – í tíunda sinn í röð – úr 5,75 prósentum í 6 prósent hafi verið nauðsynleg með hliðsjón af því að verðbólguhorfur horft fram á veginn hafa lítið breyst samkvæmt nýrri þjóðhagsspá bankans.

Þar muni mestu að einkaneyslan hefur aukist mikið að undanförnu og gengið hefur að sama skapi gefið eftir, sagði seðlabankastjóra í viðtali við Innherja eftir vaxtaákvörðunarfund bankans í gærmorgun. Þá hefur undirliggjandi verðbólga, sem mælist núna 6,9 prósent, haldið áfram að aukast sem endurspeglast meðal annars í því að yfir helmingur undirliða vísitölu neysluverðs hækkaði um meira en sex prósent milli ára í október.

Mikil óvissa var meðal markaðsaðila um vaxtaákvörðun Seðlabankans, hvort þeim yrði haldið óbreyttum eða hækkaðir jafnvel upp í allt að 50 punkta í ljósi þess að verðbólguálag hefur rokið upp, en samkvæmt könnun Innherja taldi mikill meirihluti að þeir færu upp um 25 punkta. Það varð reyndin.

Spurður hvort það hafi komið til greina að hækka vextina enn meira, eða um 50 punkta, segir Ásgeir að eins og ávallt hafi ýmsir möguleikar verið ræddir í peningastefnunefndinni. 

„Það veldur okkur aðeins áhyggjum að verðbólguvæntingar eru farnar að hækka aftur. Það skiptir máli fyrir trúverðugleika Seðlabankans að snúa þeirri þróun við. Vextirnir eru núna komnir í sex prósent og við vonum að það dugi,“ útskýrir seðlabankastjóri.

Í nýjasta hefti Peningamála, riti Seðlabankans sem var birt samhliða vaxtaákvörðuninni í gær, kemur meðal annars fram að verðbólguhorfur gætu reynst of bjartsýnar ef yfirstandandi kjaraviðræður leiða til þess að laun hækki meira en grunnspá bankans gerir ráð fyrir. Þá yrði aukin hætta á að víxlverkun launa og verðlags fari af stað þar sem vísbendingar eru um að kjölfesta verðbólguvæntinga í verðbólgumarkmiði bankans hafi veikst.

. Vísbendingar eru jafnframt um að kjölfesta verðbólguvæntinga í verðbólgumarkmiði bankans hafi veikst og því gæti tekið lengri tíma en ella að ná verðbólgu í markmið.

Eftir síðasta vaxtaákvörðunarfund í byrjun október, þegar vextir voru einnig hækkaðir um 25 punkta, sagðist Ásgeir vonast til þess að það yrði síðasta vaxtahækkun bankans í bili og hann væri mögulega „búinn að gera nóg.“ Seðlabankinn væri að gefa boltann upp til aðila vinnumarkaðarins og vísaði til þess að þróun verðbólgu myndi ráðast af gerð næstu kjarasamninga.

Samband launa og verðlags ekki verið rofið

Vaxtahækkun Seðlabankans í gær fór illa í forystufólk verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, lét þannig hafa eftir sér að vegna þessa stefni allt í að þær viðræður sem hafa staðið yfir við fulltrúa atvinnurekenda á borði Ríkissáttasemjara verði slitið og í kjölfarið gripið til harðra aðgerða. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, sagðist sömuleiðis ósammála vaxtaákvörðun Seðlabankans. Hún setji kjaraviðræðurnar í „uppnám“ og trúverðugleiki bankans hafi beðið „hnekki“ við þessa vaxtahækkun.

Við höfum það lögbundna hlutverk að tryggja verðstöðugleika og teljum að við séum að styðja við kjarasamninga með aðgerðum okkar.

Þegar seðlabankastjóri er spurður hvort hann hafi ekki verið of fljótur á sér að boða toppinn í vaxtahækkunarferlinu fyrr í haust bendir hann á að þróunin að undanförnu hafi ekki verið eins hagfelld og bankinn hafi vonast eftir. „Þetta getur þess vegna orðið erfiðara verkefni en við bjuggumst við,“ segir Ásgeir, og bætir við:

Verðhækkanir eru á breiðum grunni og undirliggjandi verðbólga hefur áfram aukist.

„Það skiptir líka máli að aðilar vinnumarkaðarins trúi því að okkur muni takast að ná niður verðbólgunni og það þurfi þess vegna ekki að semja um launahækkanir til að bæta upp fyrir þá verðbólgu sem mælist núna.“

En er ekki hættan sú að með þessari vaxtahækkun sé búið að hleypa öllu í bál og brand á vinnumarkaði?

„Vonandi ekki. Við höfum það lögbundna hlutverk að tryggja verðstöðugleika og teljum að við séum að styðja við kjarasamninga með aðgerðum okkar. Það yrði til einskis að semja um þannig launahækkanir að þær myndu brenna upp í verðbólgufári. Seðlabankinn álítur þess vegna að hann sé að hjálpa til við að tryggja að svo verði ekki,“ segir Ásgeir.

Í nýrri rannsóknarritgerð Ásgeirs Daníelssonar, fyrrverandi forstöðumanns á hagfræði- og peningasviði Seðlabankans, sem hann kynnti á málstofu í haust er fjallað um áhrif launa og verðs á erlendum vörum á þróun verðlags á Íslandi. Forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar hafa að undanförnu vísað til ritgerðarinnar í kröfum sínum um hærri laun og sagt hana sýna fram á að fyrra orsakasamband launa og verðlags hafi mælst ómarktækt á síðustu tveimur áratugum.

Má skilja niðurstöður rannsóknarinnar þannig að ekki sé lengur tölfræðilegt samband milli launa og verðlags og launahækkanir geti því ekki valdið verðbólgu?

„Það er röng túlkun,“ fullyrðir Ásgeir, og bætir við:

„Það sem hefur hins vegar gerst á undanförnum árum er að hér á landi hafa verið gerðir kjarasamningar sem hafa í meira mæli stuðlað að stöðugra verðlagi en var áður. Þetta á við um þær launahækkanir sem var samið um í Lífskjarasamningunum og eins sumpart í kjarasamningunum þar á undan. Það er ekki rétt ályktun að draga út frá því að laun hafi ekki áhrif á verðlag. Hið rétta er að ef launahækkanir eru framkvæmdar með réttum hætti, sem grundvallast á aukinni verðmætasköpun, þá búa þær ekki til verðbólgu. Þessi niðurstaða sýnir því að einhverju marki fram á þann árangur sem hefur náðst í þessum efnum á síðari árum – og við myndum gjarnan vilja halda áfram á þeirri braut.“

Það sem hefur gerst á undanförnum árum er að hér á landi hafa verið gerðir kjarasamningar sem hafa í meira mæli stuðlað að stöðugra verðlagi en var áður.

Heimilin ekki að slá lán fyrir neyslunni

Eftir að hafa styrkst nokkuð framan af ári, einkum gagnvart evrunni, hefur gengi krónunnar veikst talsvert í haust og er nú um 4 prósentum lægra en um mitt árið. Í Peningamálum Seðlabankans segir að þróunin endurspegli líklega aukinn gengisþrýsting vegna hratt vaxandi innflutnings og viðskiptahalla. Þá hefur vaxtamunur gagnvart útlöndum minnkað eftir nýlegar vaxtahækkanir erlendra seðlabanka.

„Viðskiptajöfnuðurinn fór að þróast heldur verr en við bjuggumst við,“ segir Ásgeir þegar hann er spurður um gengisveikinguna.

Á fyrri helmingi ársins jókst einkaneysla um 11,4% milli ára. Þessi mikli vöxtur endurspeglar almennt sterka stöðu heimila þar sem kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aukist töluvert og hreint virði heimila farið vaxandi.

„Við sjáum þessa miklu einkaneyslu í utanlandsferðum Íslendinga sem kemur fram í aukinni gjaldeyriseyðslu. Þá hafa erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða jafnframt aukist sem hefur skapað þrýsting á gengið. Spár Seðlabankans sýna að við erum að fara sjá viðskiptahalla sem stafar af mikilli einkaneyslu og fjárfestingu,“ útskýrir seðlabankastjóri, en samkvæmt þjóðhagsspá bankans er útlit fyrir að halllinn á viðskiptum við útlönd verði um og yfir 3 prósent fram á árið 2025.

Í Peningamálum er einnig nefnt að dregið hefur úr framvirkri sölu á gjaldeyri, sem hafði fyrr á árinu ýtt undir gengishækkun, og í september síðastliðnum jukust framvirk gjaldeyriskaup.

Seðlabankinn hefur að undanförnu komið nokkrum sinnum inn á markaðinn og selt gjaldeyri til að reyna halda aftur af gengisveikingu krónunnar. Er líklegt að þið þurfið að gera það í meira mæli ef við sjáum gengið fara að lækka frekar og þannig auka verðbólguþrýstinginn?

„Við þyrftum að skoða það. Gjaldeyrisinngripin hafa aðallega verið til að tryggja að það verði ekki of miklar sveiflur innan dags og markaðurinn fari ekki úr böndunum. Það er mjög erfitt – og óæskilegt – fyrir okkur að ætla að fara fjármagna viðskiptahallann með gjaldeyrisforðanum. Við myndum helst ekki vilja gera það. Ef vandamálið er of mikil neysla þá þurfum við að bregðast við með öðrum hætti,“ nefnir Ásgeir, og vísar þar til vaxtahækkana.

Horfur á viðskiptahalla út spátímann.

„En ef gengi krónunnar fer að lækka undir það gildi sem við teljum samrýmast undirliggjandi stöðu þjóðarbúsins þá munum við bregðast við, rétt eins og við gerðum á árinu 2020. En það þarf að hugsa slíkt vel. Ísland er lítið, opið hagkerfi og við þurfum að haga okkar neyslu á grunni þess sem þjóðarbúið aflar í gjaldeyri hverju sinni.“

Aðspurður hvort þessi mikla einkaneysla, sem jókst um 11,5 prósent á fyrri árshelmingi á milli ára, sé farin að minna á bóluárin fyrir fjármálahrunið segir Ásgeir svo ekki vera.

Ef gengi krónunnar fer að lækka undir það gildi sem við teljum samrýmast undirliggjandi stöðu þjóðarbúsins þá munum við bregðast við.

„Nei, það er stór munur þar á. Þá var fólk að taka lán fyrir neyslunni en núna er það einungis að ganga á sparnaðinn. Heimilin eiga einfaldlega þennan pening eftir miklar launahækkanir og kaupmáttaraukningu síðustu ára. Fólk á efni á þessu og er öruggt með sig. Þarna er að einhverju marki um að ræða frestaða neyslu frá því faraldrinum þegar það byggðist upp mikill sparnaður og núna vill fólk greinilega eyða honum. Við sjáum þetta líka í löndunum í kringum okkur og er ein ástæðan fyrir vaxandi verðbólgu á heimsvísu. Framboðshliðin hefur ekki náð að halda í við þessa auknu eftirspurn.“


Tengdar fréttir

Seðlabankinn hækkar vexti í sex prósent og hafa þeir ekki verið hærri frá 2010

Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur hækkað meginvexti um 0,25 prósentur, úr 5,75 prósent í 6 prósent, og vísar meðal annars til þess að undirliggjandi verðbólga hefur áfram aukist og vísbendingar eru sömuleiðis um að kjölfesta verðbólguvæntinga í markmið Seðlabankans hafi veikst. Mikill óvissa var meðal markaðsaðila um vaxtaákvörðun Seðlabankans, hvort þeim yrði haldið óbreyttum eða hækkaðir jafnvel upp í allt að 50 punkta.

„Sárgrætileg staða sem Seðlabankinn hefur komið okkur í“

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir samtökin ósammála ákvörðun Seðlabankans um að hækka meginvexti um 0,25 prósentustig í dag. Ákvörðunin setji kjaraviðræður í uppnám og segir Halldór að trúverðugleiki Seðlabankans hafa beðið hnekki við þessa ákvörðun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×