Innherji

Hag­vöxt­ur yrði sá minnst­i síð­an 2002 gang­­i kröf­­ur verk­­a­­lýðs­­for­­kólf­­a eft­­ir

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, sagði að fyrirtæki bregðist við launahækkununum með ýmsum hætti. Þau gangi á hagnað, hækki verð, hagræði í rekstri meðal annars með því að stytta vinnutíma eða uppsögnum. Við það lækka ráðstöfunartekjur fólks og heimilin dragi úr neyslu.
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, sagði að fyrirtæki bregðist við launahækkununum með ýmsum hætti. Þau gangi á hagnað, hækki verð, hagræði í rekstri meðal annars með því að stytta vinnutíma eða uppsögnum. Við það lækka ráðstöfunartekjur fólks og heimilin dragi úr neyslu. Vísir/Vilhelm

Verðbólga gæti orðið þrálátari og efnahagsbatinn hægari hækki laun mun meira en gert er ráð fyrir í grunnspá Seðlabankans. Hann spáir sex prósenta hækkun á næsta ári. Semji verkalýðsfélögin með það fyrir augum að endurheimta sambærilegt raunlaunastig og var í upphafi ársins, eins og forystufólk verkalýðsfélaga hefur gefið til kynna, yrði hagvöxtur sá minnsti hér á landi síðan árið 2002 ef frá eru talin samdráttarárin í kjölfar fjármálakreppunnar og heimsfaraldursins. 

Þetta kemur fram í Peningamálum Seðlabankans. Hækki laun á næsta ári um ellefu prósent má búast við að hagvöxtur verði 1¾ prósentum minni á næsta ári en grunnspá bankans hljóðar upp á. Það myndi fela í sér að stór hluti þess hagvaxtar sem spáð er á árinu hyrfi. Seðlabankinn spáir 2,8 prósenta hagvexti á næsta ári. Hagvaxtarhorfur fyrir árið 2024 myndu einnig versna og landsframleiðslan yrði 2,3 prósentum minni í lok spátímans eða árið 2025 en gert er ráð fyrir í grunnspánni.

Verðbólga yrði fyrir vikið næstum einu prósentu meiri á næsta ári og ¾ úr prósentu meiri árin 2024-2025. Vextir Seðlabankans yrðu jafnframt hærri til að tryggja að verðbólga væri í samræmi við verðbólgumarkmið bankans, sem er 2,5 prósent, er frá líður. Miðað við líkanið væru meginvextir bankans einu prósentu hærri á næstu tveimur árum og ½ prósentu hærri árið 2025.

Heimild: Seðlabankinn

Raunlaun hafa hækkað um 7,2 prósent frá því að skrifað var undir kjarasamninga vorið 2019 fram til haustsins 2022. Um svipað leyti hefur kaupmáttur aukist um 13 prósent.

Raunlaun hafa hins vegar gefið eftir að undanförnu. Ætla má, segir í Peningamálum, að þau hafi hækkað minna en lagt var upp með við undirritun samninganna þar sem verðbólga hefur verið langt umfram spár.

„Ummæli forystumanna verkalýðsfélaga undanfarið virðast m.a. snúa að því að vinna upp þá hækkun raunlauna sem á vantar. Í ljósi þess að spenna er á vinnumarkaði og kjölfesta verðbólguvæntinga hefur veikst gætu laun því hækkað nokkru meira á spátímanum en núverandi grunnspá gerir ráð fyrir,“ segir í Peningamálum.

Starfsfólk Seðlabankans greindi því hvað það myndi þýða fyrir hagkerfið ef laun yrðu umtalsvert hærri.

Það gerir ráð fyrir að nafnlaun hækki um liðlega fimm prósentum meira á næsta ári í þeirri viðleitni verkalýðsfélaga að endurheimta sambærilegt raunlaunastig og var í upphafi ársins, áður en verðbólgan tók að grafa undan kaupmætti. Það felur í sér að laun hækka um ellefu prósent milli ársmeðaltala á næsta ári í stað um sex prósent í grunnspánni og samtals um tæplega 24 prósent á næstu þremur árum í stað 18 prósent samkvæmt grunnspánni.

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, sagði á fundi þegar vaxtaákvörðun var kynnt í morgun að fyrirtæki bregðist við launahækkununum með ýmsum hætti. Þau gangi á hagnað, hækki verð, hagræði í rekstri meðal annars með því að stytta vinnutíma eða uppsögnum. Við það lækka ráðstöfunartekjur fólks og heimilin dragi úr neyslu.

Verði launahækkun ellefu prósent á næsta ári í stað sex prósent verða heildarvinnustundir um 2½ prósent færri á næsta ári en samkvæmt grunnspá Seðlabankans. Samtals verða þær þremur prósentum færri í lok spátímans. Lakari atvinnuhorfur vega á móti meiri hækkun nafnlauna og við bætast neikvæð áhrif hærri vaxta og aukinnar verðbólgu. Einkaneysla vex því hægar á öllum spátímanum og er ¾ prósentum minni en í grunnspánni í lok hans.

Hærri vextir hægja einnig á fjármunamyndun og þrýsta upp gengi krónunnar sem hægir á útflutningsvexti og beinir hluta innlendrar eftirspurnar að innflutningi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.