Innherji

Seðlabankinn hækkar vexti í sex prósent og hafa þeir ekki verið hærri frá 2010

Hörður Ægisson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Vísir/Vilhelm

Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur hækkað meginvexti um 0,25 prósentur, úr 5,75 prósent í 6 prósent, og vísar meðal annars til þess að undirliggjandi verðbólga hefur áfram aukist og vísbendingar eru sömuleiðis um að kjölfesta verðbólguvæntinga í markmið Seðlabankans hafi veikst. Mikill óvissa var meðal markaðsaðila um vaxtaákvörðun Seðlabankans, hvort þeim yrði haldið óbreyttum eða hækkaðir jafnvel upp í allt að 50 punkta.

Eftir síðasta vaxtaákvörðunarfund í byrjun október, þegar vextir voru einnig hækkaðir um 25 punkta, sagðist Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri vonast til þess að það yrði síðasta vaxtahækkun bankans í bili og hann væri mögulega „búinn að gera nóg.“ Seðlabankinn væri núna að gefa boltann upp til aðila vinnumarkaðarins og vísaði til þess að þróun verðbólgunnar myndi ráðast af gerð næstu kjarasamninga.

Peningastefnunefndin hefur hækkað vexti bankans á öllum sex fundum nefndarinnar á þessu ári, eða úr 2 prósentum í 6 prósent. Hafa stýrivextir Seðlabankans ekki mælst hærri frá árinu 2010.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar kemur að verðhækkanir séu á „breiðum grunni“ og gert sé ráð fyrir að verbólga, sem mældist í október 9,4 prósent, verði einnig að meðaltali 9,4 prósent á síðasta fjórðungi ársins. Hún muni síðan taka smám saman að hjaðna og verða um 4,5 prósent á síðasta ársfjórðungi 2023.

Samkvæmt könnun Innherja, sem var gerð dagana 17. til 20. nóvemer og sagt frá síðastliðinn mánudag, spáði mikill meirihluti tuttugu markaðsaðila því að vextir myndu hækka um 25 punkta, meðal annars á grunni þess að óvænt gengisveiking krónunnar hefur ýtt undir hærri verðbólguvæntingar og þá virðist enn vera talsverður eftirspurnarþrýstingur á fasteignamarkaði. Fjórir töldu að vextir yrðu óbreyttir, þrettán spáðu 25 punkta hækkun og þrír gera ráð fyrir 50 punktum.

Peningastefnunefnd segir í yfirlýsingu sinni að gengi krónunnar hafi lækkað frá októberfundi sínum. „Þá hefur verðbólguálag á skuldabréfamarkaði til lengri tíma hækkað nokkuð. Vísbendingar eru jafnframt um að kjölfesta verðbólguvæntinga í verðbólgumarkmiði bankans hafi veikst og því gæti tekið lengri tíma en ella að ná verðbólgu í markmið,“ segir nefndin.

Þá kemur fram að samkvæmt nýrri þjóðhagsspá bankans verði hagvöxtur 5,6 prósent í ár. Horfur fyrir næsta ár hafa batnað og er nú spáð 2,8 prósenta hagvexti í stað 1,9 prósent í fyrri spá bankans frá því í ágúst. „Skýrist það af horfum um hraðari vöxt innlendrar eftirspurnar en áður var talið. Spenna á vinnumarkaði er enn töluverð þótt heldur hafi dregið úr henni,“ segir í yfirlýsingunni.

Rök markaðsaðila í könnun Innherja fyrir því að Seðlabankinn væri nauðbeygður til að halda áfram að hækka vexti sína voru að flestir hagvísar hefðu þróast með óhagfelldari hætti fyrir peningastefnuna frá því í byrjun síðasta mánaðar og bankinn þyrfti því að stíga enn frekar á bremsuna. Þá hjálpi ekki til sú erfiða staða sem virðist upp í kjaramálum. Tólf mánaða verðbólgan mælist sem fyrr segir 9,4 prósent, eftir að hafa hækkað lítillega í október, og þá var eftirspurn á þriðja ársfjórðungi kröftug. Ekki er að hægja eins mikið á vexti einkaneyslu og fjárfestingu á síðari helmingi ársins eins og Seðlabankinn og fleiri gerðu ráð fyrir.

Vísbendingar eru um að kjölfesta verðbólguvæntinga í verðbólgumarkmiði bankans hafi veikst og því gæti tekið lengri tíma en ella að ná verðbólgu í markmið.

Peningastefnunefndin ítrekar sem fyrr í yfirlýsingu sinni að hún muni áfram tryggja að taumhald peningastefnunnar sé nægjanlegt til að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma.

„Peningastefnan mun á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga. Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum munu skipta miklu um þróun vaxta á næstu misserum.“


Tengdar fréttir

Styrking krónunnar gegn evru þurrkast út þrátt fyrir gjaldeyrissölu Seðlabankans

Gengi krónunnar hefur verið í stöðugum veikingarfasa á undanförnum vikum en mikil gengisstyrking framan af ári, einkum gagnvart evrunni, hefur núna gengið til baka og meira en það. Seðlabanki Íslands greip margsinnis inn í á markaði í dag með sölu á gjaldeyri úr forða sínum til að reyna að stemma stigu við of mikilli gengislækkun en samkvæmt nýrri hagspá Arion mun krónan halda áfram að gefa eftir fram á næsta ár.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.