Samstarf

Bein út­sending: Rann­sókna­þing og Hvatningar­verð­laun Vísinda- og tækni­ráðs

Rannís
Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Rannís. 
Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Rannís.  Valgarður Gíslason

Í dag fer fram Rannsóknaþing og afhending Hvatningarverðlauna Vísinda- og tækniráðs. Þingið ber yfirskriftina: Þekking í þágu samfélags – Áhrif rannsókna á íslandi og verður meðal annars fjallað um áhrifamat á Rannsóknasjóði sem ráðuneyti háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar lét gera og gefið var út nýlega.

„Rannsóknasjóður er samkeppnissjóður sem hefur það hlutverk að styrkja vísindarannsóknir og rannsóknatengt framhaldsnám á Íslandi, hvort sem það er á sviði grunnrannsókna eða hagnýtra rannsókna,“ segir Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Rannís, sem mun stýra rannsóknaþinginu sem hefst klukkan 14 í dag og haldið er á Hilton Reykjavík Nordica.

Meðal þess sem kemur fram í áhrifamatinu er að Rannsóknasjóður sé ómissandi fyrir íslenskt vísindasamfélag þar sem styrkir úr sjóðnum eru álitnir sem mikilvægt fyrsta skref við upphaf rannsókna og auki möguleika styrkþega á að sækja erlenda styrki í kjölfarið.

„Því betur sem við getum stutt við rannsóknir með sjóðum á borð við Rannsóknasjóð því öflugra þekkingarsamfélag sköpum við hér á landi. Rannsóknir gegna samfélagslegu, menningarlegu og efnahagslegu hlutverki, þær stuðla að aukinni þekkingu, lífsgæðum og hagsæld og getu okkar til að takast á við áskoranir í íslensku samfélagi. Það er þó ekki síður mikilvægt að áhrifum rannsókna sé miðlað á fjölbreyttan hátt og kveikja þannig áhuga samfélagsins á rannsóknum og vísindum,“ segir Ágúst.

Ein slík miðlunarleið, sem verður einnig til umfjöllunar á þinginu, er gagnagrunnurinn IRIS en það er kerfi sem birtir rannsóknavirkni og samfélagslega dreifingu þekkingar við rannsóknir.

„IRIS gagnagrunnurinn er virkilega mikilvægur þáttur í því að miðla rannsóknum á Íslandi og gera umfang og áhrif þeirra sýnilegri. Aðilar að kerfinu eru meðal annars íslensku háskólarnir og stofnanir á Íslandi sem sinna fjölbreyttum rannsóknum. IRIS var hleypt af stokkunum fyrr á árinu og við bindum miklar vonir til þess að kerfið verði, á næstu árum, enn öflugri gagnagrunnur um umfang og áhrif rannsókna á Íslandi,“ segir Ágúst.

Aðspurður um hvað Ágúst vilji sjá sem útkomuna af rannsóknaþingi segir hann fyrst og fremst vilja sjá lifandi og gott samtal þátttakenda um enn frekari eflingu á íslensku rannsókna- og hugvitssamfélagi sem styðji við íslenskt samfélag og árangur þess til framtíðar.

„En við ætlum ekki eingöngu að ræða saman á þinginu. Við viljum líka staldra við og verðlauna það sem vel er gert í vísindasamfélaginu og það gerum við með því að veita Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs. Verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1987 og eru veitt vísindamanni sem, snemma á ferlinum, þykir hafa skarað fram úr og skapað væntingar um framlag í vísindastarfi sem treysti stoðir mannlífs á Íslandi,“ segi Ágúst og hvetur að lokum öll, sem ekki sjá sér fært að mæta, til að fylgjast með þinginu í beinu streymi.

Rannsóknaþing fer fram á Hilton Reykjavík Nordica og hefst klukkan 14

Hægt verður að fylgjast með þinginu í beinni útsendingu í spilaranum hér fyrir neðan. Útsendingin hefst klukkan 14 og er tæplega tvær klukkustundir.

Dagskrá:

  • Setning Rannsóknaþings
  • Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra
  • Áhrifamat Rannsóknasjóðs
  • Dr. Katrín Frímannsdóttir, stefnu- og gæðastjóri við Háskóla Íslands
  • IRIS Rannsóknagátt fyrir Ísland
  • Sara Stef. Hildardóttir, verkefnastjóri rannsóknarþjónustu og opins aðgangs hjá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni
  • Stuðningur við hugvitssamfélagið
  • Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Rannís
  • Þekking í þágu samfélags: Áhrif rannsókna á Íslandi – Pallborðsumræður
  • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vísinda- og tækniráðs
  • Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra
  • Dr. Katrín Frímannsdóttir, stefnu- og gæðastjóri við Háskóla Íslands
  • Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands
  • Margrét Helga Ögmundsdóttir, dósent á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands
  • Afhending Hvatningarverðlauna Vísinda- og tækniráðs
  • Kristján Leósson, formaður dómnefndar, gerir grein fyrir störfum dómnefndar.
  • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vísinda- og tækniráðs afhendir verðlaunin.




Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×