Viðskipti erlent

Raf­mynta­keisarinn sem reyndist nakinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Sam Bankman-Fried á góðgerðarviðburði í New York í júní. Hann lét háar fjárhæðir af hendi rakna til góðgerðarsamtaka. Þau sitja nú í súpunni ásamt fjölda fjárfesta og viðskiptavina eftir að FTX hrundi.
Sam Bankman-Fried á góðgerðarviðburði í New York í júní. Hann lét háar fjárhæðir af hendi rakna til góðgerðarsamtaka. Þau sitja nú í súpunni ásamt fjölda fjárfesta og viðskiptavina eftir að FTX hrundi. Vísir/Getty

Stofnandi rafmyntakauphallarinnar FTX var hylltur sem einhvers konar kennifaðir rafmyntarbransans og viðraði sig upp við stórstjörnur og stjórnmálamenn. Allt að milljón fjárfesta og viðskiptavina sitja nú uppi með milljarða dollara tap eftir skyndilegt hrun fyrirtækisins.

FTX fór með himinskautum um tíma og var metið á 32 milljarða dollara, jafnvirði um 4.570 milljarða íslenskra króna, þegar mest lét. Það markaðssetti sig ákaft, meðal annars með því að kaupa nafnarétt á körfuboltahöll í Míamí og auglýsingar í Formúlu 1. Auk þess gerði það stórstjörnur eins og ruðningskappann Tom Brady og þáverandi eiginkonu hans Gisele Bündchen, út af örkinni til þess að bera út fagnaðarerindið um rafmyntir.

Mörgum að óvörum hrundi fyrirtækið eins og spilaborg þegar það byrjaði að kvisast út að ekki væri allt með felldu með fjármál þess og viðskiptavinir gerðu áhlaup á það fyrr í þessum mánuði. Innan við viku síðar óskaði fyrirtækið eftir gjaldþrotameðferð í Bandaríkjunum. Síðan þá hafa borist nær daglegar fréttir af óráðsíu og mögulegu misferli í rekstri kauphallarinnar.

Sam Bankman-Fried, undradrengurinn að baki FTX, breyttist úr rafmyntahetju með áhrif í stjórnmálum og dægurmenningu í skúrk á nánast einni nóttu. Lögmaður sem kom fram fyrir hönd FTX fyrir dómi í síðustu viku líkti Bankman-Fried við lénsherra sem hefði stjórnað fyrirtækinu eftir eigin dutlungum.

„En á endanum var keisarinn án klæða,“ sagði James Bromley, lögmaður FTX.

Vildi hámarka auðinn til að láta gott af sér leiða

Bankman-Fried er aðeins þrítugur, sonur tveggja prófessora við lögfræðideild Stanford-háskóla í Kaliforníu. Hann ólst upp í virðulegu og sögufrægu húsi á háskólasvæðinu í Palo Alto og var sendur í fokdýran einkaskóla. Þar skaraði hann fram úr í eðlisfræði en er sagður hafa haldið sig að mestu út af fyrir sig og spilað tölvuleiki eins og Starcraft og League of Legends.

Við MIT-háskóla í Boston á austurströnd Bandaríkjanna nam Bankman-Fried eðlisfræði og stærðfræði. Hann helgaði sig þó ekki rannsóknum á eðli alheimsins heldur heillaðist af heimspeki sem hefur verið nefnd skilvirk hjálpfýsi (e. effective altruism). Meginstef hennar er að einstaklingar ættu að hámarka jákvæð áhrif gjörða sinna á rökfastan hátt. Sumir fylgjendur hennar túlka hana á þann veg að þeir sem vilja láta gott af sér leiða ættu að sækja í hálaunastörf í viðskiptum eða fjármálum og gefa svo auðæfi sín til góðra málefna.

Þannig sneri Bankman-Fried sér að fjármálageiranum og starfaði fyrir verðbréfafyrirtækið Jane Street. Þar starfaði hann sem miðlari í þrjú ár og gaf hluta af launum sínum.

Vaxandi rafmyntaheimurinn freistaði Bankman-Frieds og fljótlega stofnaði hann eigin vogunarsjóð sem sérhæfði sig í þessum umdeilda gjaldmiðli.

Gengi fjölda rafmynta tók dýfu í vor og aftur þegar það kom í ljós að FTX stæði á brauðfótum.Vísir/EPA

Hagnaðist á verðmunarviðskiptum

Alameda Research var stofnað árið 2017 þegar Bankman-Fried var 25 ára gamall. Hann gerði sér fljótlega grein fyrir að mikil gróðavon væri í svokölluðum verðmunarviðskiptum með rafmyntina bitcoin en gengið á henni var tíu prósent hærra í Japan en Bandaríkjunum. Viðskipti sem byggjast á slíkum forsendum eru alvanaleg á fjármálamörkuðum en ólíkt hefðbundnum fjármálafyrirtækjum þurfti Alameda ekki að lúta neinum reglum um áhættu eða gegnsæi.

Viðskiptin voru fjármögnuð með lánsfé í rafmyntum á háum vöxtum frá fjárfestum og brátt var Bankman-Fried byrjaður að græða á tá og fingri á misvirðisviðskiptunum. Hann sagði New York Magazine að fyrirtækið hefði sýslað með allt að 25 milljónir dollara af bitcoin á dag.

„Þú getur reiknað það út. Þetta voru klikkuðustu viðskipti sem ég hef séð,“ sagði hann.

Alameda sat þó ekki lengi eitt að verðmunarviðskiptunum þar sem hefðbundin fjármálafyrirtæki byrjuðu að herja á þann markað. Fyrirtækið hélt engu að síður áfram að græða á meðan gengi bitcoin og fleiri rafmynta hækkaði og hækkaði.

Bankman-Fried og félagar ráku sig þó á að erfitt og tímafrekt var að fjármagna viðskipti Alameda. Bankar og hefðbundin fjármálafyrirtæki héldu að mestu leyti að sér höndum þar sem þeim hugnaðist ekki sá frumskógur sem rafmyntamarkaður án regluverk og eftirlits var.

Fjármálafyrirtæki á Wall Street voru ekki áfjáð í að lána Alameda fyrir fjárfestingum í rafmyntum. Því ákvað Bankman-Fried að fara aðrar leiðir.Vísir/Getty

FTX svarið við áskorunum Alameda

Lausnin sem Bankman-Fried fann á fjármagnsþörf Alameda var að stofna kauphöll fyrir rafmyntir. Viðskiptavinir FTX greiddu fyrirtæki þóknun fyrir viðskipti sem fóru fram þar og þá fengu þeir afslátt ef þeir notuðu rafmynt þess, FTT. Ávinningurinn var notaður til þess að halda Alameda gangandi.

Alameda sjálft var umsvifamest í viðskiptum með FTT hjá FTX og réði þannig miklu um gengi rafmyntarinnar, að sögn New York Times. Bent hefur verið á mögulega hagsmunaárekstra sem sköpuðust vegna þessara nánu tengsla fyrirtækjanna tveggja. Einn framkvæmdastjóra Alameda var á köflum í ástarsambandi við Bankman-Fried og hann var sjálfur með puttana í fjárfestingum fyrirtækisins á sama tíma og hann stýrði kauphöllinni.

FTT naut vaxandi vinsælda rafmyntabraskara sem löðuðust að lágum þóknunum og úrvali af rafmyntum og flóknum fjármálavafningum í boði. Bæði FTX og Alameda högnuðust  á því þegar gengi myntarinnar styrktist. Alameda nýtti FTT-eignir sínar sem veð fyrir lánunum sem fjármögnuðu viðskipti þess og kaup á nýjum rafmyntafyrirtækjum fyrir milljarða dollara.

Kauphöllin óx hröðum skrefum. Verðmæti hennar var talið um átján milljarðar dollara sumarið 2021 en innan nokkurra mánaða var það komið í 25 milljarða. Þegar bólan var þanin sem mest var fyrirtækið metið á 32 milljarða dollara í janúar á þessu ári. FTX var þriðja stærsta rafmyntakauphöll í heimi.

Rafmyntir eru ekki aðeins gjaldmiðill eða vara sem verslað er með heldur einhvers konar hugmyndafræði fyrir ákveðinn hóps fólks sem lifir og hrærist í þeim heimi.Vísir/EPA

Vandlega sköpuð ímynd

FTX markaðssetti sig grimmt og Bankman-Fried, sem gengur oft undir skammstöfuninni SBF, skóp sér vandlega ímynd sem einhvers konar undrabarn í viðskiptum sem ætti eftir að sanka að sér fordæmalausum auðæfum með viðskiptaviti sínu. Liður í þeirri ímyndarsköpun var útlit og framkoma stofnandans. Á opinberum viðburðum og fundum með fjárfestum birtist Bankman-Fried eins og óður vísindamaður með mikið úfið hár, í stuttbuxum, stuttermabol og strigaskóm.

Í hlaðvarpi New York Times um fall FTX var því lýst hvernig fjárfestar sem komu á fund Bankman-Frieds voru leiddir inn í fundarherbergi með glerveggjum þar sem þeir gátu séð forstjórann vakna af værum svefni á skrifstofu sinni. Þaðan ráfaði hann inn á fundinn og hóf að greina rafmyntamarkaðinn fyrir þá af meintri náðargáfu, ennþá með hænurass í hnakkanum.

Tímaritið Forbes hyllti Bankman-Fried sem auðugasta einstaklinginn undir þrítugu í október í fyrra. Hann kom fram á ráðstefnum, í sjónvarpi og bar jafnvel vitni fyrir bandarískri þingnefnd. Talaði hann fyrir því að setja skynsamlegar reglur um rafmyntir.

„Ég veit ekki hvernig ég veit það, ég veit það bara. SBF er sigurvegari,“ skrifaði Adam Fisher, viðskiptablaðamaður sem skrifaði um Bankman-Fried fyrir vogunarsjóðinn Sequoia Capital sem fjárfesti í FTX. Fyrirtækið sagði að hann yrði líklega fyrsti biljónamæringur heims. Sequoia hefur síðan þá afskrifað eign sína í fyrirtækinu og fjarlægt greinina um Bankman-Fried af vefsíðu sinni.

Hann skapaði sér einnig nafn fyrir góðgerðarstörf og styrkti meðal annars rannsóknir á hvernig mannkynið getur búið sig undir nýja heimsfaraldra smitsjúkdóma eftir kórónuveirufaraldurinn. 

Þá var hann stórtækur á stjórnmálasviðinu. Saman voru Bankman-Fried og Ryan Salame, aðstoðarframkvæmdastjóri hjá FTX og einn nánasti samstarfsmaður Bankman-Frieds, á meðal stærstu fjárhagslegu bakhjarla bandarísku stjórnmálaflokkanna fyrir þingkosningarnar í haust. Bankman-Fried dældi fé í Demókrataflokkinn en Salame í Repúblikanaflokkinn, að því er virðist til að hjálpa frambjóðendum sem töluðu fyrir takmörkuðum ríkisafskiptum af rafmyntamarkaðinum.

Í pallborði með Clinton og Blair

Fjárfestar jusu hátt í tveimur milljörðum inn í FTX í fyrra og framan af þessu ári. Ris FTX þýddi að Bankman-Fried gat fengið stórstjörnur eins og Brady og Bündchen  í lið með sér sem sendiherra og andlit fyrirtækisins. Talið er að fyrrverandi hjónin hafi jafnframt fjárfest umtalsvert í FTX. 

Þá keypti fyrirtækið auglýsingu í hálfleik á Ofurskálinni í bandarísku ruðningsdeildinni NFL með Larry David, öðrum höfunda Seinfeld-gamanþáttanna, og nafnarétt á heimavelli körfuboltaliðsins Miami Heat.

Heimavöllur körfuboltaliðsins Miami Heat hefur heitið FTX-leikvangurinn eftir að fyrirtækið keypti réttinn á nafninu í markaðsherferð sinni. Miam-Dade-sýsla hefur þegar beðið skiptarétt um leyfi til þess að fjarlægja nafnið á vellinum.AP/Marta Lavandier

Þegar Bankman-Fried blés til rafmyntaráðstefnu á Bamahaeyjum í apríl á þessu ári sat hann í pallborði með Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, og Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands. Bankman-Fried var sem fyrr á stuttbuxnum við hlið jakkafataklæddu uppgjafarstjórnmálamannanna.

Vandræði Alameda hefjast

Halla tók undan fæti hjá rafmyntaspákaupmönnum í vor. Gengi myntanna hrundi og margir sátu uppi með sárt ennið. Bankman-Fried varð hins vegar tímabundið að enn meiri hetju í augum rafmyntaaðdáenda þar sem hann kom öðrum fyrirtækjum í kröggum til aðstoðar.

Eitt þeirra fyrirtækja sem hann kastaði líflínu til var hans eigið Alameda Research. Það átti eftir að verða honum og FTX að falli. 

Lánveitendur Alameda voru byrjaðir að kalla inn lán þar sem þeir voru uggandi yfir sumum fjárfestingum þess í nýjum rafmyntarfyrirtækjum í upphafi árs. Þegar rafmyntamarkaðurinn hrundi í vor fylgdu fleiri í kjölfarið og Alamenda stóð frammi fyrir alvarlegri lausafjárþurrð þar sem eignir þess voru að mestu bundnar í hinum og þessum rafmyntum sem höfðu þar að auki tapað virði sínu.

Bankman-Fried virðist þá hafa tekið það örlagaríka skref að nota innistæður viðskiptavina FTX til þess að greiða lánadrottnum Alameda. 

Changpeng Zhao, stofnandi og forstjóri Binance, átti þátt í að trú á keppinautnum FTX hrundi. Eftir að fréttir af nánum tengslum FTX og Alameda bárust sagðist hann trúa því eitthvað væri bogið og að Binance ætlaði að draga sig alfarið út úr FTX.Vísir/Getty

Spilaborgin hrundi hratt

Þegar fyrst hrikti í stoðum FTX opinberlega fyrir rúmum hálfum mánuði hrundi spilaborgin hratt. Rafmyntafréttaveitan CoinDesk komst á snoðir um samkrull FTX og Alameda, þar á meðal að eignir Alameda væru að miklu leyti bundnar í FTT sem erfitt var að leysa út fyrir reiðufé, í byrjun nóvember. 

Changpeng Zhao, forstjóri Binance, stærstu rafmyntakauphallar heims og keppinautar FTX, tísti um að fyrirtæki hans ætlaði að selja allar FTT-myntir sem það ætti í kjölfar uppljóstrananna.

Fréttin og tíst Zhao leiddi til áhlaups viðskiptavina á FTX sem óttuðust að tapa innistæðum sínum. Alls tóku þeir út um sex milljarða dollara á þremur dögum. Gengi FTT féll eins og steinn og þar með virði eigna FTX og Alameda.

Áhlaupið varð til þess að FTX neyddist til að stöðva úttektir og Bankman-Fried leitaði ásjár fjárfesta um að leggja FTX til átta milljarða dollara til þess að fyrirtækið ætti fyrir innistæðum, að því er Wall Street Journal sagði frá á sínum tíma.

Á ögurstundu virtist Binance ætla að koma eins og riddari á hvítum hesti og bjarga FTX með viljayfirlýsingu um yfirtöku á fyrirtækinu. Eftir stutta skoðun féll Binance frá kaupunum. Ómögulegt hafi verið að greina á milli eigna og skulda FTX og Alameda og svo virtist sem að FTX hefði misfarið með fjármuni viðskiptavina. Einn heimildarmanna AP-fréttastofunnar líkti bókhaldi FTX við „svarthol“.

Örlög FTX voru þá innsigluð. Auður Bankman-Frieds, sem hafði verið metinn á um 26,5 milljarða dollara, þurrkaðist að mestu út. FTX sótti um gjaldþrotameðferð í Bandaríkjunum 11. nóvember og Bankman-Fried steig til hliðar sem forstjóri.

Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá myndband Wall Street Journal þar sem fall FTX er útskýrt.

Skiptastjóri Enron aldrei séð aðra eins óstjórn

Óráðsían innan FTX og aragrúa tengdra fyrirtækja virðist hafa verið alger. Til marks um það sagðist John Ray þriðji, sem tók við sem skiptastjóri þegar Bankman-Fried hrökklaðist frá, aldrei hafa séð annað eins. Ray var áður skiptastjóri Enron, stærsta orkufyrirtækis Bandaríkjanna, sem hrundi til grunna í skugga stórfelldra bókhaldssvika.

Allt innra eftirlit hefði brugðist og engin áreiðanleg gögn um fjárreiður fyrirtækisins til. FTX hefði lotið stjórn fámenns hóps „óreyndra, einfaldra og mögulega spilltra einstaklinga“. Ray sagðist ekki vita til þess að endurskoðandi hefði farið yfir bókhald Alameda.

Lögmenn sem komu fram fyrir hönd FTX þegar gjaldþrotameðferðin hófst fyrir skiptarétti í Delaware í síðustu viku sögðu frá því að shluti eigna FTX væri horfinn. Honum hefði annað hvort verið stolið í tölvuinnbroti daginn sem fyrirtækið óskaði eftir gjaldþrotameðferð eða horfið á annan hátt.

Áætlað er að kröfuhafar FTX gætu verið allt að milljón. Útlit er fyrir að þeir tapi milljörðum. AP-fréttastofan sagði frá því fyrir helgi að fram að þessu hafi aðeins tekist að endurheimta og tryggja um 740 milljónir dollara af eignum FTX.

Ekki hefur þó verið upplýst um stærstu kröfuhafana þar sem lögmenn FTX óskuðu eftir að þeir nytu nafnleyndar lengur til þess að verja þá fyrir hættu á frekari þjófnaði í tölvuárásum.

Einn fjárfesta FTX hefur nú stefnt Bankman-Fried, Brady, Bündchen, David, NBA-leikmanninum Steph Curry og fleirum fyrir þátt þeirra í að milljarðar töpuðust.

Í ljós hefur komið að FTX keypti fasteignir á Bahamaeyjum fyrir hundruð milljóna dollara, þar á meðal lúxusíbúðir til að hýsa æðstu stjórnendur. Foreldrar Bankman-Fried voru meðal annars skráðir fyrir lúxusvillu á eyjunum en þau sögðust hafa reynt að skila henni til FTX frá því áður en fyrirtækið lagði upp laupana. Þau sögðu ekki hvort FTX hefði fjármagnað kaupin.

Orkufyrirtækið Enron var það stærsta í Bandaríkjunum en það varð gjaldþrota eftir að ljós kom að stjórnendur þess höfðu falið tap af áhættusömum fjárfestingum í fjölda dótturfélaga. Gjaldþrotið er alræmt í viðskiptasögu Bandaríkjanna en skiptastjóri Enron segist þó aldrei hafa séð annað eins og hjá FTX.Vísir/Getty

Rannsóknir á mögulegum lögbrotum

Í svörum til fjölmiðla eftir gjaldþrotið hefur Bankman-Fried borið því við að hann hafi ekki vitað hversu miklu fé FTX hefði dælt inn í Alameda jafnvel þó að upphæðirnar hlypu á milljörðum dollara. Hann hafi talið að Alameda hefði nægar tryggingar fyrir lánunum.

„Þetta var aldrei ætlunin. Stundum læðist lífið upp að þér,“ sagði hann í einu viðtalinu.

CNBC-sjónvarpsstöðin sagði frá því í síðustu viku að Bankman-Fried reyndi enn að finna kaupendur að FTX til þess að bjarga fyrirtækinu fyrir horn, jafnvel þó að hann vinni ekki lengur fyrir það. Hann héldi því fram að hægt væri að endurheimta milljarða dollara upp í kröfur viðskiptavina og fjárfesta.

Verðbréfa- og kaupþingsnefnd Bandaríkjanna og dómsmálaráðuneytið rannsaka nú hvort að lög hafi verið brotin hjá FTX. Þá ætlar nefnd fulltrúardeildar Bandaríkjaþings að efna til fundar um hrun fyrirtækisins. AP-fréttastofan segir líklegt að þær rannsóknir beinist að því hvort að fyrirtækið hafi brotið lög um verðbréf með því að nota innistæður viðskiptavina FTX til að greiða skuldir Alameda.

Uppljóstranir Reuters-fréttastofunnar benda til þess að Bankman-Fried gæti vel hafa framið lögbrot þegar hann færði tíu milljarða dollara af innistæðum viðskiptavina FTX yfir til Alameda með sérstökum „bakdyrum“ í bókhaldskerfi FTX með leynd. Bakdyrnar komu í veg fyrir að aðrir stjórnendur tækju eftir breytingum á fjárreiðum FTX. Stór hluti þess fjár sé síðan horfinn.

Þegar blaðamaður Reuters spurði Bankman-Fried út í horfna féð í textaskilaboðum svaraði hann aðeins „??“.

„Fjandinn hafi eftirlitsaðila“

Þrátt fyrir að vera í raunverulegri hættu á að vera sóttur til saka vegna FTX hefur Bankman-Fried alls ekki forðast sviðsljósið. Hann hefur svarað fyrirspurnum blaðamanna og hent í langan þráð á Twitter um fall fyrirtækisins

Fyrir helgi var hann enn á lista yfir ræðumenn á Dealbook-ráðstefnu New York Times sem fer fram í vikunni. Á meðal annarra þátttakenda í ráðstefnunni eru Volodýmýr Selenskíj Úkraínuforseti og Janet Yellen, fjármálaráðherra Bandaríkjanna.

Í sumum þeirra viðtala sem Bankman-Fried hefur veitt eftir fall FTX hefur hann fellt grímuna sem hann setti upp til að hjálpa ímynd sinni á meðan allt var á uppleið. Í samskiptum við blaðamann vefmiðilsins Vox sagði hann að fagurgali hans um að hann vildi að einhverjar reglur yrðu settar um rafmyntir hafi bara verið almannatengsl.

„Fjandinn hafi eftirlitsaðila. Þeir gera allt verra,“ sagði hann og viðurkenndi að margt sem hann lét hafa eftir sér opinberlega undanfarin ár hafi aðeins verið látalæti.

Kaldhæðni örlaganna gæti nú hagað því þannig að gjörðir hans verði til þess að lögum og reglum verði loks komið yfir rafmyntamarkaðinn í kjölfar fordæmalauss hruns FTX, hvort sem það var raunverulegur vilji hans eða ekki.


Tengdar fréttir

Milljarða­eignir FTX sagðar horfnar

Verulegum hluta eigna fallna rafmyntarkauphallarinnar FTX var stolið eða er horfinn, að sögn lögmanna fyrirtækisins. Lögmaður fyrirtækisins heldur því fram að Sam Bankman-Fried, fyrrverandi forstjóri FTX, hafi rekið það eins og persónulegt lén sitt.

Stjórn­endur FTX sagðir hafa keypt lúxus­í­búðir fyrir milljarða

Rafmyntarfyrirtækið FTX, stofnandi þess, foreldrar hans og æðstu stjórnendur fyrirtækisins eru sagðir hafa keypt fjölda lúxusfasteigna á Bahamaeyjum fyrir jafnvirði milljarða króna á undanförnum tveimur árum. Fyrirtækið er nú í gjaldþrotameðferð í Bandaríkjunum og er til rannsóknar vegna meintra verðbréfasvika.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×