Körfubolti

Kyrie Irving slapp úr banninu í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kyrie Irving var ánægður með að fá aftur að spila körfubolta með Brooklyn Nets liðinu í nótt.
Kyrie Irving var ánægður með að fá aftur að spila körfubolta með Brooklyn Nets liðinu í nótt. AP/Eduardo Munoz

Körfuboltamaðurinn Kyrie Irving gat loksins mætt í vinnuna í NBA-deildinni í nótt en hann snéri þá aftur í lið Brooklyn Nets eftir tveggja vikna fjarveru.

Brooklyn Nets setti Kyrie í bann fyrir að deila á samfélagmiðlum upp úr bók og kvikmynd sem snérust um gyðingahatur.

Irving fékk á sig mikla gagnrýni og auk þess að vera settur í bann þá missti hann meðal annars stóran auglýsingasamning við Nike íþróttavöruframleiðandann.

Í yfirlýsingu frá Nike sagði að fyrirtækið líði hvorki gyðingahatur né nokkurt form hatursorðræðu og það er óhætt að segja að Irving hafi fengið slæma útreið í fjölmiðlum vegna háttalags síns.

Kyrie var alls frá í átta leiki en hann þurfti að uppfylla mörg skilyrði til að fá að snúa aftur inn á völlinn.

Irving hjálpaði Brooklyn Nets að vinna 127-115 sigur á Memphis Grizzlies í nótt en hann skoraði 14 stig og tók 5 fráköst.

Irving var ánægður með að fá að spila aftur með liðsfélögum sínum.

„Mér leið vel. Ég saknaði liðsfélaganna og saknaði þjálfarateymisins. Það er gott að komast í gegnum þennan fyrsta leik og núna getum við horft fram á veginn á þessu tímabili,“ sagði Kyrie Irving eftir leikinn.

Hann hitti úr 5 af 12 skotum en náði ekki að gefa eina stoðsendingu á 26 mínútum.

Irving sagðist líka aldrei hafa efast um að hann myndi spila aftur fyrir Brooklyn Nets en margir héldu að hans tíma hjá Nets liðinu væri lokið eftir þetta bann.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×