Viðskipti erlent

Leyfir al­menningi að kjósa um endur­komu Trump

Bjarki Sigurðsson skrifar
Musk leyfir fólkinu að ráða hvort Trump snúi aftur. 
Musk leyfir fólkinu að ráða hvort Trump snúi aftur.  Getty/Taylor Hill

Elon Musk, eigandi Twitter og stofnandi Tesla, hefur boðið almenningi að kjósa um hvort Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti ætti að snúa aftur á Twitter. Á tólf klukkutímum hafa rúmlega tíu milljónir manna kosið. 

Donald Trump var bannaður á Twitter í kjölfar árásarinnar á þinghúsið í Bandaríkjunum þann 6. janúar á síðasta ári. Trump var með yfir 88 milljónir fylgjenda þegar aðgangi hans var lokað. 

Trump fór í mál við Twitter vegna bannsins og sakaði hann samfélagsmiðilinn um ritskoðun. Þá vildi hann meina að forsvarsmenn fyrirtækisins hefðu of mikil áhrif á pólitíska umræðu í Bandaríkjunum. Hann stofnaði í kjölfar bannsins sinn eigin samfélagsmiðil, Truth Social. 

Elon Musk hefur ávallt talað um Twitter sem stað þar sem er fullt tjáningarfrelsi. Hann vildi stoppa miðilinn frá því að banna fólk sem ekki væri með rétttrúnaðarskoðanir. 

Í kjölfar þess að Musk keypti miðilinn hefur hann verið að aflétta banni einstaklinga á miðlinum. Heilaga gralið, Donald Trump, er þó enn eftir og fá notendur Twitter að kjósa um hvort hann fái að snúa aftur. 

Kosningin hófst klukkan 47 mínútur yfir miðnætti í gærnótt og hafa þegar þetta er skrifað rúmlega 10,2 milljónir notenda kosið. 52,3 prósent vilja að Trump fái að snúa aftur en 47,7 prósent vilja að banninu verði ekki aflétt. 

Undir kosninguna skrifaði Musk „Vox Populi, Vox Dei“ sem á íslensku þýðir: Rödd fólksins, rödd Guðs. Enn eru ellefu klukkutíma eftir af kosningunni og líklegt þykir að Musk muni taka ákvörðun um Trumo út frá niðurstöðu hennar. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×