Körfubolti

„Ætlum ekki að vera litlir í okkur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson skoraði sextán stig gegn Georgíu.
Ægir Þór Steinarsson skoraði sextán stig gegn Georgíu. vísir/vilhelm

Ægir Þór Steinarsson var að vonum vonsvikinn eftir tap Íslands fyrir Georgíu, 85-88, í undankeppni HM 2023 í körfubolta karla í kvöld. Hann bar sig þó vel og reyndi að horfa fram á veginn.

„Ég er mjög sár. Mér fannst við eiga tækifæri á að jafna leikinn. Við misstum þá aðeins fram úr okkar þegar um þrjár mínútur voru eftir og við vorum að elta. Þetta féll þeirra megin,“ sagði Ægir við Vísi eftir leikinn í Laugardalshöll.

„Mér framkvæmdu hlutina betur. Þeir náðu smá forskoti þegar um þrjár mínútur voru eftir og það gaf þeim smá slaka. Þannig hafa leikirnir fallið okkar megin. Við höfum náð þessari litlu forystu þegar á reynir en þeir náðu henni núna. Þetta var bara jafn leikur sem féll þeirra megin.“

Ísland vann síðustu tvo heimaleiki sína í undankeppninni á undan þessum í framlengingu en núna sátu okkar menn eftir með sárt ennið eftir spennuleik.

„Við gerum ekkert annað en að læra af því. Við verðum að muna að við spiluðum vel í dag. Við þurfum að skoða það sem við gerðum vel og byggja ofan á það fyrir næsta leik sem er enn stærri,“ sagði Ægir og vísaði til leiksins gegn Úkraínumönnum á mánudaginn.

„Við ætlum ekki að vera litlir í okkur þótt við höfum tapað hérna. Það er svekkjandi og við erum súrir en við gleymum þessu um leið og við leggjumst á koddan og vinnum næsta leik.“


Tengdar fréttir

Lands­liðs­þjálfari kvenna ösku­illur eftir tap Ís­lands

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur í Subway deild karla og landsliðsþjálfari kvenna í körfubolta, var sérfræðingur á RÚV þegar Ísland tók á móti Georgíu í undankeppni HM í körfubolta. Benedikt var vægast sagt óánægður með dómgæslu leiksins og þá sérstaklega undir lok leiks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×