Handbolti

„Allt sem við spiluðum sóknarlega gekk upp“

Andri Már Eggertsson skrifar
Sandra Erlingsdóttir fór á kostum og gerði 11 mörk í dag
Sandra Erlingsdóttir fór á kostum og gerði 11 mörk í dag Vísir/Hulda Margrét

Ísland vann átta marka sigur á Ísrael 34-26 í forkeppni heimsmeistaramóts kvenna í handbolta 2023. Sandra Erlingsdóttir fór á kostum og gerði ellefu mörk og var afar ángæð með sigurinn í viðtali eftir leik.

„Mér fannst sóknarleikurinn mjög góður þar sem allt sem við spiluðum gekk upp. Við fengum á okkur 26 mörk sem var aðeins of mikið en annars var þetta mjög fínn leikur,“ sagði Sandra Erlingsdóttir eftir átta marka sigur á Ísrael. 

Það var jafnræði með liðunum fyrsta korterið í fyrri hálfleik en síðan fann Ísland betri takt og náði hægt og rólega að byggja upp forskot.

„Við vorum að renna blint í sjóinn með andstæðing og það tók smá tíma að finna jafnvægið. Við vildum keyra hratt á þær og hlaupa mikið en fórum aðeins fram úr okkur í byrjun.“

„Við fórum síðan að spila betri vörn og það var meira skipulag þegar við fórum í seinni bylgjuna.“

Ísland byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og gerði fyrstu fjögur mörkin og Sandra sagði að það hafi verið talað um það í hálfleik að setja tóninn strax í upphafi síðari hálfleiks. 

„Þær fengu ódýr mörk í lok fyrri hálfleiks og enduðu á að skora úr fríkasti svo það var smá þungt yfir okkur inn í klefa í hálfleik en þá var lagt upp með að byrja sterkar í seinni hálfleik.“

Sandra Erlingsdóttir fór á kostum og var markahæst hjá Íslandi með ellefu mörk og var ánægð með liðsfélagana sína sem voru að gefa á hana. 

„Ég fékk boltann rosa mikið þegar ég var laus og komin ein í gegn sem gerist ekki það oft og við spiluðum ótrúlega vel sem lið.“

Sandra taldi það afar ólíklegt að það myndi vera þreyta í liðinu gegn Ísrael á morgun. 

„Við náðum að rúlla þokkalega vel á liðinu og Ísrael spilaði langar sóknir og við fegnum hvíld við það,“ sagði Sandra að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×