Körfubolti

Isa­bella Ósk: Ég fann það bara fyrir sjálfa mig og mína fram­tíð í körfu­bolta að ég vildi reyna að vera í toppslag í ár

Siggeir Ævarsson skrifar
Ísabella skipti á dögunum yfir í Njarðvík frá Breiðabliki.
Ísabella skipti á dögunum yfir í Njarðvík frá Breiðabliki. Vísir/Bára Dröfn

Isabella Ósk Sigurðardóttir fór beint í eldlínuna í sínum fyrsta leik með Njarðvík í kvöld, þegar liðið mætti grönnum sínum í hörkuleik. Það var hart tekist á og margar villur dæmdar, þá sérstaklega á heimakonur. 

Það hlýtur að vera skemmtilegt að koma beint inn í svona alvöru leik og fá þennan Suðurnesjaríg beint í æð í fyrsta leik?

„Já skemmtilegt að koma í fyrsta leik í svona grannaslag. Ég er bara búinn að taka tvær æfingar með liðinu, svo að auðvitað tekur smá tíma að komast almennilega inn í sóknarleikinn. Læra að spila inn á allar stelpurnar og þær á mig líka. En það mun koma fljótt.“

Félagaskipti Isabellu hafa að vonum vakið mikla athygli, enda gerist það afar sjaldan í íslensku deildinni að leikmenn í stórum hlutverkum skipti um lið á miðju tímabili. Hvað varð til þess að Isabella ákvað að söðla um á þessum tímapunkti?

„Svona í stuttu máli, þá urðu breytingar í Breiðabliki sem varð til þess að ég sá ekki beint að við værum að fara gera einhverja alvöru hluti, láta finna fyrir okkur almennilega. Þetta er búið að vera svona síðustu ár, liðið hefur verið um miðja deild. Þannig að ég fann það bara fyrir sjálfa mig og mína framtíð í körfubolta að ég vildi reyna að vera í toppslag í ár og ákvað því að koma hingað.“

Samkvæmt heimildum Vísis voru í það minnsta tvö önnur lið í deildinni sem föluðust eftir starfskröftum Isabellu. Var Njarðvík alltaf valkostur númer eitt?

„Já það var eiginlega bara Njarðvík,“sagði miðherjinn Isabella Ósk eftir tap í sínum fyrsta leik með Njarðvík.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×