Körfubolti

„Líkamstjáning manns sem er búinn að gefast upp“

Sindri Sverrisson skrifar
Kevin Durant var niðurlútur eftir tapið gegn Indiana Pacers um helgina.
Kevin Durant var niðurlútur eftir tapið gegn Indiana Pacers um helgina. Getty/Elsa

Á meðal þess sem verður tekið fyrir í þætti kvöldsins af Lögmálum leiksins er skelfilegt gengi Brooklyn Nets það sem af er leiktíð í NBA-deildinni í körfubolta.

Kevin Durant og félagar hafa tapað fimm af fyrstu sex leikjum sínum en þeir töpuðu gegn Indiana Pacers, 125-116, um helgina. Það var þungt yfir Durant eftir tapið og sagði Tómas Steindórsson hálfgerðan uppgjafartón hafa verið í honum í viðtali:

„Við sáum líka bara KD þarna. Þetta er líkamstjáning manns sem er búinn að gefast upp. Hann var eiginlega sofnaður þegar hann var að tala þarna. Það getur ekki verið gaman að vera í Brooklyn Nets núna,“ sagði Tómas í Lögmálum leiksins, sem hefjast klukkan 21:45 í kvöld á Stöð 2 Sport 2.

„Þeir eru á versta stað sem hægt er að vera á sem íþróttamaður,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson. „Þeir eru að tapa leikjum, þeir eru ekki búnir að finna lausnirnar og eru að leita að þeim, og þetta er svo sársaukafullt á meðan á þessu stendur. Það sem er erfiðast þegar maður horfir á þetta utan frá er að maður sér ekki alveg hvenær ljósið í enda ganganna kemur, og hvort það sé eitthvað ljós þar,“ sagði Kjartan Atli.

„Það er engin kemistría þarna. Ekki innan vallar og að því er virðist ekki utan vallar heldur,“ bætti Tómas við.

Klippa: Lögmál leiksins í kvöld

Lögmál leiksins er vikulegur þáttur um NBA-deildina sem er sýndur á mánudögum á Stöð 2 Sport 2. NBA-deildin er hluti af Sport Erlent sem kostar kr. 3.990 á mánuði. Smelltu hér til að kaupa áskrift.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×