„Þær eru búnar að ráðast á og leika sér að Noregi,“ sagði Bent Svele, sérfræðingur TV 2, í beinni útsendingu frá leiknum. „Það er verið að éta okkur lifandi,“ bætti lýsandinn Harald Bredeli við þegar Noregur var lentur tíu mörkum undir í seinni hálfleik.
„Það var gott að fá þessa vekjaraklukku,“ sagði Þórir eftir leikinn.
Noregur er að undirbúa sig fyrir Evrópumótið sem hefst hjá liðinu eftir slétta viku og á Noregur titil að verja eftir gullverðlaunin 2020. Tapið í gær gaf þó ekki góð fyrirheit en Holland skoraði 18 mörk í fyrri hálfleiknum og var vörn og markvarsla norska liðsins hreinlega í molum.
Í miðja norsku vörnina vantaði parið sem lék þar þegar liðið varð heimsmeistari í fyrra. Kari Brattset Dale er ólétt og Maren Aardahl gat ekki verið með í gær vegna vöðvameiðsla.
„Spiluðum illa í öllum þáttum leiksins“
Það jákvæða fyrir Þóri er kannski helst að Nora Mörk var frábær í sóknarleiknum í fyrri hálfleik og virðist komin á fulla ferð eftir vöðvameiðsli í haust.
„Við spiluðum einfaldlega illa í öllum þáttum leiksins,“ sagði Mörk við TV 2 en hún fylgdist með seinni hálfleik af bekknum. Hún segist ekki áhyggjufull fyrir EM þrátt fyrir tapið. „En við eigum að sýna betri frammistöðu.“
Noregur mætir Danmörku á morgun og Brasilíu á sunnudag, í síðustu leikjum sínum fyrir EM. Noregur spilar svo við Króatíu næsta föstudag í fyrsta leik á EM, og er einnig í riðli með Sviss og Ungverjalandi. Í milliriðli bíða svo þrjú af þessum liðum: Svíþjóð, Danmörk, Slóvenía og Serbía. Tvö lið komast svo áfram í undanúrslit.