Viðskipti innlent

Landsbankinn hagnast um 11,3 milljarða á árinu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans. Vísir/Vilhelm

Landsbankinn hagnaðist um 11,3 milljarða á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins, þar af um 5,8 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum þar sem segir að hreinar þjónustutekjur bankans hafi aukist um 14,4 prósent á milli ára. Skýrist það af vaxandi umsvifa í eignastýringu og markaðsviðskiptum að því er segir í tilkynningunni.

Arðsemi eiginfjár á fyrstu níu mánuðum ársins var 5,6 prósent og var 8,5 prósent á þriðja ársfjórðungi. Lækkun á gangvirði hlutabréfaeignar bankans hefur dregið úr arðsemi á árinu.

Þar segir einnig að hreinar vaxtatekjur hafi aukist um 17,6 prósent, aðallega vegna stærra útlánasafns og hærra vaxtastigs.

Á fyrstu níu mánuðum ársins 2022 námu hreinar vaxtatekjur 33,6 milljörðum króna samanborið við 28,6 milljarða króna á sama tímabili árið áður, sem er 17,6% hækkun á milli tímabila. Hreinar þjónustutekjur Landsbankans námu 7,9 milljörðum króna samanborið við 6,9 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Aðrar rekstrartekjur voru neikvæðar um 3,8 milljarða króna en voru jákvæðar um 10,2 milljarða króna á sama tímabili árið 2021, segir í tilkynningunni.

Heildareignir bankans jukust um 41,3 milljarða króna á tímabilinu og námu 1.771 milljarði króna þann 30. september 2022. Útlán jukust um 108,9 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2022. Í lok september 2022 voru innlán frá viðskiptavinum 968,0 milljarðar króna, samanborið við 900,1 milljarð króna í árslok 2021, og höfðu því aukist um 67,9 milljarða króna.

„Þjónustutekjur bankans hafa vaxið umfram áætlanir, aðallega vegna meiri umsvifa og aukinnar markaðshlutdeildar, og vaxtatekjur bankans af stærra útlánasafni eru góðar. Um leið fer kostnaður lækkandi og hefur rekstrarkostnaður sem hlutfall af heildartekjum aldrei verið lægri. Áfram leiða neikvæð áhrif vegna gengislækkunar á óskráðum hlutabréfum til þess að arðsemin á árinu er lægri en við stefnum að. Að þeim sveiflulið frátöldum er uppgjör bankans mjög gott og staða bankans sterk á öllum sviðum, er haft eftir Lilju Björk Einarsdóttur, bankastjóra bankans í tilkyningunni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×