Erlent

Skutu á mótmælendur við leiði Amini

Samúel Karl Ólason skrifar
Skjáskot úr myndbandi sem sýnir öryggissveitir undirbúa aðgerðir gegn mótmælendum í Íran.
Skjáskot úr myndbandi sem sýnir öryggissveitir undirbúa aðgerðir gegn mótmælendum í Íran. AP

Vitni segja öryggissveitir í Íran hafa skotið á syrgjendur sem komið höfðu saman við gröf Masha Jina Amini í dag. Þar hafði fólk komið saman vegna þess að fjörutíu dagar eru liðnir síðan hún dó í haldi lögreglunnar.

Fjölmiðlar í Íran segja að um tíu þúsund manns hafi safnast saman við kirkjugarðinn í bænum Saqez og að til átaka hafi komið við lögregluþjóna sem mættu búnir fyrir óeirðir.

Reuters hefur eftir vitnum að lögreglan hafi skotið á fólk sem var komið saman og handtekið tugi þeirra. Mannréttindasamtök segja að fjölskylda Amini hafi verið vöruð við því að halda nokkurskonar minningarathöfn og hafi þeim verið hótað því að bróðir hennar yrði handtekinn.

Amini, sem er Kúrdi, var handtekin af siðgæðislögregluþjónum vegna þess að hún þótti ekki vera með höfuðklút sinn nógu þéttan um höfuðið. Hún lést svo í haldi lögreglu en fjölskylda hennar segir hana hafa verið myrta og hafa þau ekki fengið að sjá lík hennar.

Lögreglan segir hina 22 ára gömlu konu hafa fengið hjartaáfall.

Frá mótmælum í Íran í dag.

Síðan þá hafa umfangsmikil mótmæli átt sér stað víða um Íran þar sem mótmælendur hafa meðal annars kallað eftir því að klerkastjórn Írans fari frá völdum. Mótmælum þessum hefur verið mætt af mikilli hörku og er talið að minnst 250 hafi látið lífið og þúsundir hafa verið handteknir.

Sjá einnig: Segja öryggissveitir hafa barið unglingsstúlku til bana

Yfirvöld létu loka öllum skólum í Kúrdistan-héraði Írans í dag og segja það hafa verið gert vegna inflúensu. Nemendur og stúdentar hafa leitt mótmælin en umfang þeirra er sagt hafa komið klerkastjórninni á óvart.

Mótmælendum hefur verið lýst í ríkismiðlum Írans sem landráðamönnum, hræsnurum og óþokkum.


Tengdar fréttir

Orðin að þjóð­hetju eftir heim­komuna

Elnaz Rekabi sneri aftur til Íran snemma í morgun eftir að hafa keppt á Asíumótinu í klifri. Rekabi notaðist ekki við slæðu þegar hún keppti og óttuðust margir um líf hennar um tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×