Innherji

Farþegatekjur Icelandair 54 milljarðar og aldrei verið meiri á einum fjórðungi

Hörður Ægisson skrifar
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, en sjóðsstaða félagsins hefur aldrei verið sterkari og nam reiðufé þess um 46 milljörðum lok þriðja fjórðungs.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, en sjóðsstaða félagsins hefur aldrei verið sterkari og nam reiðufé þess um 46 milljörðum lok þriðja fjórðungs. Aðsend

Icelandair skilaði rekstrarhagnaði (EBIT) upp á 92,7 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 12,3 milljarða króna, á þriðja ársfjórðungi og jókst hann um 11,2 milljarða frá sama tímabili í fyrra. Forstjóri flugfélagsins segir að með því að skila svo góðu uppgjöri á þessum tímapunkti á grundvelli sterkrar tekjumyndunar sýni „augljóslega að viðskiptalíkan félagsins sé að sanna gildi sitt.“

Í uppgjöri sem Icelandair sendi frá sér rétt í þessu kemur að farþegatekjur félagsins hafi numið 54 milljörðum á fjórðungnum og hafa þær aldrei verið hærri í stökum fjórðungi. Fjöldi farþega var 1,4 milljónir á tímabilinu sem er tvöfalt meira en á sama tíma fyrir ári.

Þá var sætanýting Icelandair sú besta frá upphafi og jukust einingatekjur um 38 prósent. Á sama tíma lækkaði einingakostnaður, að frádregnum eldsneytiskostnaði, um átta prósent.

Þá segir í uppgjörstilkynningu Icelandair að sjóðsstaða félagsins hafi aldrei verið sterkari og nam reiðufé þess um 46 milljörðum lok þriðja fjórðungs.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að félagið hafi nýtt sér þann sveigjanleika sem það búi yfir til að grípa tækifærin á öllum mörkuðum með góðum árangri.

„Við jukum flugframboð okkar í sem nemur 82 prósent af framboði ársins 2019 og tvöfölduðum fjölda farþega á milli ára. Það er virkilega ánægjulegt að sjá hvernig tengiflug yfir hafið hefur náð fyrri styrk hjá okkur eða um 43 prósent af heildarfjölda farþega í fjórðungnum. Jafnframt styrktum við sölu í Saga farrými og náðum þar með betri sætanýtingu þar en fyrir faraldurinn. Þá héldu bæði fraktflutninga- og leiguflugsstarfsemi okkar áfram að styðja við heildartekjuöflun félagsins.“

Þá segir hann að með því að ná þessum árangri í uppbyggingu eftir faraldurinn í jafn krefjandi aðstæðum og raun ber vitni hafi einungis verið hægt með samhentu átaki starfsfólks þvert á fyrirtækið.

„Raskanir á flugi vegna krefjandi aðstæðna á erlendum flugvöllum og tafir í aðfangakeðjum höfðu mikil áhrif á starfsemi okkar og ekki síst á upplifun farþega. Mig langar að þakka starfsfólki okkar fyrir frábært starf að undanförnu, viðskiptavinum okkar fyrir traustið og þolinmæðina og íslenskri ferðaþjónustu fyrir samstarfið við að byggja ferðaþjónustuna hratt upp í aftur í sameiningu.

Við jukum flugframboð okkar í sem nemur 82 prósent af framboði ársins 2019 og tvöfölduðum fjölda farþega á milli ára.

Bókunarstaðan í fjórða ársfjórðungi er sterk en við erum þó undirbúin undir mótvind í vetur. Rekstrarumhverfið verður áfram krefjandi með hækkandi vöxtum og kostnaði sem líklegt er að hafi áhrif á eftirspurn. Við erum þó sannfærð um að það eru áfram mikil tækifæri fyrir Ísland sem áfangastað. Icelandair byggir á sterkum grunni, með sterka lausafjárstöðu sem og öflugt leiðakerfi og sveigjanleika sem gerir okkur kleift að hreyfa okkur hratt og aðlaga þjónustu okkar og starfsemi að aðstæðum hverju sinni.“

Hlutabréfaverð Icelandair stóð í 1,94 krónum á hlut við lokun markaða í dag og hafði hækkað um liðlega átta prósent síðustu viku. Frá áramótum er það upp um rúmlega sex prósent og er markaðsvirði félagsins tæplega 80 milljarðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×