Viðskipti innlent

Vildu fá fjögur þúsund krónur en þurfa að greiða 372 þúsund

Bjarki Sigurðsson skrifar
Veitingastaður Fresco í Faxafeni.
Veitingastaður Fresco í Faxafeni. Fresco

Kona þarf ekki að greiða 4.580 krónur líkt og fyrirtækið Fresco 48 ehf. sem rekur veitingastaðinn Fresco hafði krafið hana um. Þess í stað þarf fyrirtækið að greiða málskostnað konunnar sem var 372 þúsund krónur.

Málið var tekið fyrir hjá Héraðsdómi Reykjaness í síðustu viku. Fresco 48 krafðist þess að kona skildi greiða 4.580 króna fyrir matarúttekt á veitingastað þeirra.

Samkvæmt Fresco 48 mun matarúttektin hafa átt sér stað þegar veitingareksturinn tilheyrði félaginu HNB ehf.. Krafan hafi verið meðal eigna sem Bestun birtingarhús ehf. keypti af HNB og síðar þrotabúi HNB í samræmi við yfirlýsingu skiptastjóra. Kröfurnar voru svo framseldar Fresco 48 í mars á þessu ári.

Konan tók út eitt stykki salat og eitt stykki af svokölluðum mána, samtals að fjárhæð 4.580 króna. Reikningur var gefinn út á hendur stefndu þann 14. mars á þessu ári, innheimtuviðvörun póstlögð níu dögum síðar og ítrekun send þann 6. apríl.

Stefnda byggði á því að umrædd krafa hafi ekki verið fyrir hendi enda hafi þrotabú HNB ekki átt nokkra kröfu á hendur sér. Stefnandi reisi kröfu sína á matarúttektarseðli og sé það skjal ekki reikningur sem útgefinn var af HNB.

Á umræddum matarúttektarseðli er ekki hægt að sjá upplýsingar um dagsetningu ætlaðrar úttektar. HNB var stofnað árið 2006 og því gæti úttektin náð allt til þess árs.

Héraðsdómur mat það sem svo að ekki lægi fyrir fullnægjandi sönnun þess að stefndi hafi tekið á sig umrædda skuldbindingu með matarúttekt, hvenær sú úttekt hafi átt sér stað né hvort greitt hafi verið fyrir úttektina hafi hún átt sér stað.

Því var konan sýknuð af kröfum Fresco 48 ehf.. Fresco 48 er gert að greiða málskostnað konunnar sem hljóðar upp á 372 þúsund krónur. Dóminn má lesa í heild sinni hér.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×